146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör. Þau gefa auðvitað betri fyrirheit en eru í stjórnarsáttmálanum. Ég vona að við eigum eftir að eiga samstarf um þessi mál.

Húsnæðismál eru risamálaflokkur og snúast ekki bara um það að geta búið. Hér hafa menn verið að tala um þéttingu byggðar og annað. Þá skulum við tala um loftslagsmál og sóun. Íslendingar búa að meðaltali í 65 fermetrum á meðan Finni býr t.d. í 34. Þarna eigum við líka mjög mikið að sækja.

Hér var líka minnst á leiðréttingu og fyrstu fasteign. Bæði úrræðin nýttust og nýtast best þeim sem eru efnameiri. Við skulum reyna að finna leiðir til þess að koma til móts við þá sem virkilega eru í þörf fyrir hjálp. Þar get ég tekið hjartanlega undir með hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur sem talar um mikilvægi leigumarkaðarins. Það er ekki nauðsynlegt að eiga íbúð, það þarf að tryggja réttindi, sérstaklega þegar leigumarkaðurinn er að komast í hendurnar á fólki sem virðist fyrst og fremst hafa skammtímasjónarmið að leiðarljósi. Við þurfum að efla félagslegan stöðugleika með þroskuðum leigumarkaði.

En rétt í lokin, af því að hér höfum við bara verið að tala um höfuðborgina, ein spurning til hæstv. ráðherra: Menn hafa talað mikið um framboð á lóðum og að það mundi leysast allt ef sveitarfélög mundu sinna framboði á lóðum. Ég er viss um að það er nóg framboð af lóðum á Raufarhöfn, Þórshöfn, Snæfellsnesi, mörgum stöðum úti um allt land. Vandamálið þar er annars konar. Það er að framleiðslukostnaður á íbúðinni er margfalt hærri en söluandvirði íbúðarinnar. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra taka á því vandamáli? Það er spurning um byggð í landinu og réttlæti og jafnrétti.