146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Í umræðunni í gær var ég auðvitað bara að vitna til formanns starfshópsins sem kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og sagði að það hefði þurft meiri vinnu til að klára verkefnið og afla frekari upplýsinga. Staðreyndin var einfaldlega sú að tíminn dugði ekki til að gera skýrslu sem hann taldi ná með viðunandi hætti utan um efnið. Það kom líka fram að skýrslan var send ráðuneytinu um miðjan september. Þá átti eftir að prófarkalesa hana og fara yfir hana og yfir þær athugasemdir sem hugsanlega kæmu fram. Efni skýrslunnar var kynnt ráðherranum 5. október.

Það er ekkert öðruvísi með þessa skýrslu en margar aðrar skýrslur sem koma fyrir ráðuneytið. Það er farið yfir þær áður en þær eru kynntar, hvort sem það er þingnefndum eða almenningi, þannig að í mínum huga var ekkert óeðlilegt við þetta. Þessi skýrsla er hins vegar ágætisgrunnur til að ákveða framhaldið, hvaða frekari gagna þarf að afla, hvað hægt er að gera betur varðandi eftirlit o.s.frv. Þannig að skýrslan er ágæt svo langt sem hún nær. En í mínum huga er ekkert óeðlilegt við þetta. Það er heldur ekkert óeðlilegt við framgang ráðherrans að mínu mati. Það var heldur ekki að skilja á máli formanns starfshópsins þó að það hefði verið æskilegra að skýrslan hefði farið til umræðu fyrr en var gert.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna