146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Logi Már Einarsson kom hér í pontu í gær og gerði að umtalsefni orð sem ég lét falla í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í fyrrakvöld. Það skrýtna var að hann beindi fyrirspurn sinni að virðulegum heilbrigðisráðherra. Mér finnst ekki mikil prúðmennska falin í því að spyrja aðra út úr minni ræðu þegar ég var sjálf í húsi og tiltæk til að svara spurningum þingmannsins. Ég veit ekki hvað hv. þm. Loga Einarssyni gengur til með svona háttalagi og ég vona svo sannarlega að það sé ekki til marks um þau vinnubrögð sem hann eða aðrir þeir sem ekki eiga sæti í ríkisstjórn að þessu sinni ætla að ástunda. Hv. þm. Logi Einarsson þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Björt framtíð taki ekki undir góð mál með honum. Bara alls ekki.

Nokkur góð mál hafa þegar komið fram og vil ég nefna í þessu samhengi sérstaklega heilbrigðisáætlun frá Framsóknarflokknum sem er algerlega í samræmi við heilbrigðisstefnu sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að mynda heildstæða heilbrigðisstefnu.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Einari Brynjólfssyni þar sem hann minntist á og fagnaði því að opna ætti bókhald ríkisins. Það er ágætt að minnast á það í þessu samhengi að það var einmitt meiri hluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sem var fyrsta opinbera stofnunin sem opnaði bókhald sitt þar sem gagnsæi og lýðræði hefur verið áhersla þess meiri hluta.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna