146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég er í sjálfu sér samþykk því og finnst skynsamlegt að fara þessa leið. Það var gerð tilraun með að sameina samgöngumál og dómsmál og það má segja að sá lærdómur sem var hægt að draga af því hafi verið að ráðuneytið er hreinlega of stórt til að anna báðum þessum stóru og mikilvægu málaflokkum.

En mig langaði til að spyrja ráðherrann í ljósi þess að verið er að ráðast í þessar breytingar hvort rætt hafi verið að flytja Póst- og fjarskiptastofnun, fyrst verið er að breyta hlutum í ráðuneyti sem myndi henta betur, fyrst ráðherrann er að fjalla um að nauðsynlegt sé að draga rétta málaflokka saman þannig að það sé samfella, yfir í t.d. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.