146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:18]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, við höfum ekki skoðað það sérstaklega hvort þessi stofnun ætti betur heima í öðru ráðuneyti. Hins vegar er hægt að segja að það eru ýmis álitaefni sem maður veltir svo sem fyrir sér í þessu samhengi. Ég hef t.d. heyrt hugmyndir um að ferðamálin gætu verið með samgöngumálum eins og áður var, það er sem sagt ekki ný hugmynd, menn hafa velt því fyrir sér. En að mínu áliti væri það röng breyting. Það væri ekki skynsamlegt að gera vegna þess að með því væri ekki verið að gera ferðamálunum jafn hátt undir höfði og við viljum gera í þessu stjórnarsamstarfi með sérstöku ráðuneyti þar sem ferðamálin eru í forgrunni. Fyrst ég er kominn út í þessa sálma vil ég taka fram að ég tel alveg nauðsynlegt að efla þá skrifstofu í því ráðuneyti.