146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:23]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst eins og ég kom inn á í máli mínu að það mun hafa einhvern viðbótarkostnað í för með sér að taka eitt ráðuneyti og breyta því í tvö. Ég nefndi ráðuneytisstjórann. Ég nefndi ákveðna grunnþjónustu sem þarf að vera til staðar í hverju ráðuneyti, eins og að halda sérstaklega utan um rekstur ráðuneytisins. Það verður að skoðast að hve miklu leyti sú þjónusta sem borin er uppi af rekstrarskrifstofu innanríkisráðuneytisins mun gagnast í tveimur aðskildum ráðuneytum, og hvort ráða þurfi viðbótarstarfsfólk. En ég hvet menn til að horfa á þetta í stærra samhengi hlutanna. Ég held að við höfum gert aðeins of mikið af því að einblína á það mögulega rekstrarhagræði sem fæst með sameiningu tveggja ráðuneytisstjóra í einn, en við höfum misst sjónar á hinu gríðarlega hagræði sem við getum náð fram svo víða annars staðar í ríkisrekstrinum eins og við höfum (Forseti hringir.) verið að ræða í þessu samhengi og öðru. Ég nefni sameiginlegu innkaupin og svo margt annað.