146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:25]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef reynt eftir bestu getu að tiltaka rekstrarþætti sem augljóslega verða nýir. Það er augljóst að nýr ráðuneytisstjóri bætist við. Það verður að koma betur í ljós eftir að farið hefur verið yfir það nákvæmlega í innanríkisráðuneytinu hvort þörf verður á nýju starfsfólki vegna rekstrarlegs aðskilnaðar. Það leiðir af svari við þeirri spurningu að hve miklu leyti er hægt að viðhalda rekstrarlegu hagræði.

Það er sjálfsagt að það komi fram í umræðunni að ríkisstjórnin hefur lagt upp með að ráðherrar geti nýtt sér heimild til að hver ráðherra verði með tvo aðstoðarmenn. Það tengist ekki beint þessu máli hér, það tengist því óbeint. En það mun hljótast af því viðbótarkostnaður. Það er ekkert verið að reyna að draga fjöður yfir það.

En á móti ætlum við að ná fram hagræði víða annars staðar í ríkisrekstrinum sem verður (Forseti hringir.) ef vel tekst til margfalt það rekstraróhagræði sem af þessu kann að hljótast.