146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:33]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er heils hugar sammála því að við höfum gert of mikið af því í gegnum tíðina að brjóta upp stjórnsýsluna í of veikburða einingar. Ég er enn sammála því. Þess vegna erum við t.d. að fara að ráðast í endurskoðun á fyrirkomulagi kærunefnda sem eru á sjötta tug í stjórnkerfinu, margar hverjar veikburða, margar hverjar sem standast ekki neinar málsmeðferðartímareglur o.s.frv., og hafa mögulega orðið til þess að of víða hefur brotnað út úr ráðuneytunum sérfræðiþekking og geta til að fást við flókna málaflokka.

Ég nefndi líka áðan í ræðu minni að mér þætti koma vel til álita að taka stofnanir sem hafa staðið sjálfstætt og gera þær að ráðuneytisstofnunum. Það myndi efla ráðuneytin sem stjórnsýslueiningar og hjálpa til við að byggja upp sérfræðiþekkingu þar. Ekkert af þessu breytir hinu sem er að samgöngumálin fara ekkert sérstaklega vel með dómsmálunum og það er grunnurinn að þeirri breytingu sem við mælum hér fyrir.