146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:34]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Segja má að þessi málaflokkur, skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, hafi verið mér mikið áhugamál í áratugi. Þegar ég las sögu Stjórnarráðsins 1904–1964 varð mér ljóst að ekki var allt sem skyldi í uppbyggingu í stjórnsýslu á Íslandi. Eitt sinn varð til bréfsefni þar sem á stóð iðnaðarráðuneytið. Þar með varð iðnaðarráðuneytið til. Það var ekki gert með þingsályktun ellegar með forsetaúrskurði.

Í upphafi er skipanin þannig að það er dómsmálaskrifstofa þar sem landritari og ráðherra Íslands eru í forsvari. Atvinnu- og samgöngumál eru á annarri skrifstofu og á þriðju skrifstofu eru fjármál, sem eru nánast arfleifð af dönsku rentukammeri. Þetta er hin upphaflega skipan Stjórnarráðsins. Það er ekki fyrr en með stjórnarráðslögum 1970 að komin er skikkan á skipan Stjórnarráðsins. Þá verða til 13, 14 ráðuneyti ef ég man rétt, m.a. var eitt ráðuneyti sem hét Hagstofa Íslands. Í þeirri skipan sem þá var var flest vel gert. En ég minnist þess að einn málaflokkur var dálítið á skjön við verkefni ráðuneytisins, það voru vátryggingar, vegna þess að vátryggingum var skipað í heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti. Heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti var fyrst og fremst málefni almannatrygginga, en vátryggingar heyra bersýnilega undir fjármálamarkað.

Ég tel að í því æði sem hér gekk yfir 2009 og 2010 hafi menn gengið dálítið á skjön og ætlað sér að ná fram nánast slíku hagræði að hér yrðu þrjú ráðuneyti, þ.e. innanríkisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti. En af því varð ekki. Ég tel að þeir málaflokkar sem hér á að kljúfa upp eigi bara ekkert erindi saman. Því sé rétt að kljúfa þetta upp með formlegum hætti.

Ýmislegt bendir til þess að málefni dómsmálaráðuneytisins gamla hafi orðið út undan á undanförnum árum af ýmsum ástæðum sem hæstv. forsætisráðherra kann að rekja síðar. Ég tel líka að sá forsetaúrskurður sem gekk í upphafi ársins, að færa málefni Seðlabankans til forsætisráðuneytisins sem efnahagsráðuneytis, hafi verið réttur. Það að færa alla skapaða hluti undir fjármálaráðuneytið á þarsíðasta kjörtímabili var sennilega — ég ætla ekki að geta mér til um ástæður, en niðurstaðan var röng. Seðlabanki á ekki að vera undir fjármálaráðuneyti frekar en Seðlabanki átti ekki að vera undir viðskiptaráðuneyti á sínum tíma. Það sem ég tel að þurfi að gera núna í framhaldi af því sem hér er verið að gera, og væntanlega dugar það með forsetaúrskurði, er að færa málefni fjármálamarkaða frá fjármálaráðuneyti. Þetta eru málefni sem eiga heima í viðskiptaráðuneyti sem því miður hefur fengið minna vægi en ella. Það gengur ekki að eignarhald bankanna eins og það er í dag skuli vera í fjármálaráðuneyti og sömuleiðis reglusetning.

Eignarhald allra ríkisfyrirtækja er búið að færa undir fjármálaráðuneytið, sem er rétt, þetta eru ríkiseignir. Fjármálaráðuneyti er tekju-, eigna-, gjalda- og skuldastýring, en það að fara með forræði fjármálamarkaða, þ.e. banka, vátryggingafélaga og annarra hluta fjármálamarkaðarins, er ekki málefni fjármálaráðuneytisins. Það þarf að færa þetta yfir í virkt viðskiptaráðuneyti.

Ég tek sömuleiðis undir orð hæstv. forsætisráðherra um eflingu efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytisins. Sú skrifstofa hét áður Þjóðhagsstofnun. Þar var spádeild. Reyndar var þjóðhagsreikningi komið fyrir í Hagstofu og var í þokkalegum höndum þar, en Hagstofa er ekki spástofnun heldur safnar hún saman upplýsingum og á í rauninni ekki að horfa til framtíðar. Efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytisins ber því að efla.

Svo ég haldi enn og aftur áfram með hugleiðingar um skipan ráðuneyta þá finnst mér alltaf alveg sprenghlægilegt að hafa málefni landbúnaðar og sjávarútvegs í einu ráðuneyti, vegna þess að sá sem þar fer með fer til útlanda til að óska eftir fríverslun með sjávarafurðir og hann fer til útlanda til að útskýra af hverju er ekki fríverslun með landbúnaðarafurðir á Íslandi. Það þarf mann með mjög klofinn heila til að rökstyðja það í útlöndum. Þegar þetta er rökstutt á Íslandi er það alltaf hlægilegt í mínum eyrum.

Ég ætla með örfáum orðum að koma inn á einn málaflokk enn sem heitir ferðamál. Það vill svo til að í atvinnuvegaflokkun á heimsvísu eru ferðamál ekki til. Ferðamál er safn eða hluti úr nokkrum málaflokkum, svo sem eins og flugrekstri, rekstri ferja, veitingarekstri, hótelrekstri o.s.frv. Til samans heitir þetta ferðamál. Reglusetning a.m.k. í flugrekstri og siglingum á vissulega heima í samgönguráðuneyti eins og nú er, en ekki er þar með sagt að málaflokkurinn eins og hann er varðandi markaðssetningu og því um líkt eigi heima í samgönguráðuneyti.

Ég tel að það sem hér er verið að gera auki ótvírætt skýrleika í stjórnsýslu. Menn verða stundum að horfa til þess að hagræðið getur endað með skelfingu. Ég held að sú tilraun sem var gerð til þess að rústa stjórnarráðslögin frá 1970 hafi ekki skilað hagræði eða bata í stjórnsýslu.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.