146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[12:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það verður að sjálfsögðu áhugavert að sjá hvað kemur út úr tilraunum til þess að samþætta stjórnsýsluna og samnýta að einhverju fyrir Stjórnarráðið í heild tiltekna hluti. Mér finnst það áhugavert og sjálfsagt mál að það sé skoðað. Það er nú svo sem ekki nýtt af nálinni. Má segja að forsætisráðuneytið hafi á köflum verið að auka hlutverk sitt sem samþættingaraðili í frumvarpasmíð og öðru slíku. En ég vara við bjartsýni, ofurbjartsýni, á að það reynist að öllu leyti auðvelt, tala þar af ákveðinni reynslu. Ekki stærra mál en bílarekstur Stjórnarráðsins, við ákváðum nú að reyna að koma skikk á þau mál og sameina bílareksturinn undir eina einingu í Stjórnarráðinu, gekk ekki þrautalaust því að þá vildu ráðuneytin helst ráða sínum ráðherrabíl og bílstjóra og mætti margar fleiri sögur segja af slíku.

Vandinn er sá að mér finnst við sumpart vera að fara í gagnstæðar áttir. Ef við tökum lögin um opinber fjármál þá gera þau í raun ráð fyrir því að efla ráðuneytin og sjálfstæði þeirra á því sviði a.m.k. Það verður ekki heldur horft fram hjá tiltekinni stærðarhagkvæmni og faglegri samlegð innan stærri og breiðari ráðuneyta. Þetta liggur alveg fyrir. Tökum t.d. bara rekstrarskrifstofu ráðuneytanna eða rekstrarsviðið. Ráðuneyti eru gjarnan þannig uppbyggð að það eru nokkrar lóðréttar skrifstofur með helstu viðfangsefni, síðan eru svið eða skrifstofur sem eru þverfaglegar eins og rekstrarsvið ráðuneytis, sem sér um rekstur ráðuneytisins. Ég nefndi lögfræðina sem dæmi um svið sem getur verið mjög praktískt að hafa þvert á skrifstofurnar í ráðuneytinu, enda sé ráðuneytið það stórt að það standi undir tveggja, þriggja, fjögurra manna lögfræðisviði eða -skrifstofu. Ég sé ekki annað en að öll ráðuneytin verði núna að koma upp fjárlagasviði eða fjárlagaskrifstofu til að ráða við sitt (Forseti hringir.) hlutverk á grundvelli laganna um opinber fjármál. Hv. þingmaður nefndi mannauðsmálin, starfsmannamálin. Þetta er allt (Forseti hringir.) miklu auðveldara og praktískara að gera í stórum, breiðum og öflugum ráðuneytum heldur en í mörgum litlum.