146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[12:15]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi hér tilraunir til að samræma ráðherrabílstjóra og bílaflota Stjórnarráðsins. Ég verð að viðurkenna að ég hafði enga sérstaka þekkingu á því og finnst það nú eiginlega hálfaumingjalegt ef það hefur ekki gengið upp.

Bara svo ég grípi aðeins niður í þessa skýrslu sem ég vísaði í áðan um samræmda stjórnsýslu, sem var örugglega unnin í tíð ríkisstjórnar sem hv. þingmaður var þátttakandi í, þar var einmitt lögð áhersla á markvissa mannauðsstjórnun í Stjórnarráðinu. Það var líka verið að leggja áherslu á að hægt væri að bæta flæði starfsmanna milli ráðuneytanna þannig að sérfræðiþekking gæti farið á milli þegar það ætti vel við. Það er talað um mikilvægi þess að ráðuneytin geti verið með þverfagleg greiningar-, stefnumótunar- og verkstjórnarteymi innan Stjórnarráðsins. Nauðsynlegt sé að bæta endurmenntun starfsmanna, við komum kannski aðeins inn á það m.a. varðandi rafræna stjórnsýslu. Svo þarf að hvetja ráðuneytin til að eiga með sér gott samstarf og afstýra því að lög og reglur standi því í vegi. Skýra þarf betur miðlægt hlutverk forsætis- og fjármálaráðuneyta og samstarf þeirra á milli til að gott samhengi verði milli stefnu ríkisstjórnar og fjárlagatillagna til Alþingis.

Ég tel að þær tillögur sem hér eru geti samræmst þessu mjög vel en eins og ég var að nefna áðan þá brýni ég forsætisráðherra og fjármálaráðherra í því að halda vel utan um miðlæga þjónustu og að halda því á lofti þar sem hægt er að ná fram einhverri hagræðingu og samlegð.