146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[12:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil þá svar hæstv. fjármálaráðherra svo að hann ætli að taka stefnu síðustu ríkisstjórnar upp óbreytta, þannig að breytingarnar sem felist í nýrri ríkisstjórn séu í raun ekki meiri en þær að hann ætli að taka upp fjármálastefnu síðustu ríkisstjórnar. Það er bara fínt að fá það staðfest, þetta er í raun og veru í anda þess sem ég hef talið vera og þá liggur það fyrir.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um eitt, sem hefur verið talsmaður mjög bættra vinnubragða á Alþingi og talað mikið fyrir þeim. Á það var bent þegar lög um opinber fjármál voru samþykkt, sem þessi áætlunargerð byggir á, að til þess að lögin gætu náð tilgangi sínum og til að Alþingi gæti sinnt nauðsynlegu aðhaldshlutverki sínu þyrfti að styrkja stöðu Alþingis, hér þyrfti að fá inn fjármagn til að þingmenn hefðu aðgang að frekari sérfræðingum, alveg eins og gert var fyrir öll ráðuneytin sem fengu öll sérstaka aukafjárveitingu til að innleiða lög um opinber fjármál, af einhverjum ástæðum hikstaði það hjá framkvæmdarvaldinu að leggja til svipaðan stuðning fyrir Alþingi. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra: Mun hann beita sér fyrir því að Alþingi fái aukinn fjárstuðning til að Alþingi geti (Forseti hringir.) veitt framkvæmdarvaldinu eðlilegt aðhald sem hefur nú fengið mun meira hlutverk en áður í nýju lagaumhverfi þannig að þingmenn geti sinnt þeim skyldum sem þeir hafa svarið stjórnarskránni eið að að uppfylla?