146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[12:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra framsöguna. Ég hjó eftir orðum hans um launaþróun. Ég vildi vera viss um að ég hefði heyrt rétt af því að það er náttúrlega dálítið mikilvægt. Mér heyrðist hæstv. ráðherra segja að launaþróun ætti ekki að vera umfram verðbólgu. Það myndi þá væntanlega þýða kjaraskerðingu eða lækkun á kaupmætti þegar á heildina er litið.

Enn fremur hjó ég eftir í texta tillögunnar að þar er sagt, með leyfi forseta, að „öllu óreglulegu og einskiptisfjárstreymi“ verði varið til niðurgreiðslu skulda. Þar hegg ég eftir orðinu „öllu“ sem mér finnst áhugavert.