146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er lögð fyrir þingið tillaga til þingsályktunar um fjármálastefnu í samræmi við lög um opinber fjármál. Það sem verður að hafa í huga áður en við ræðum þessa tillögu sérstaklega er bakgrunnur hennar sem er lagaramminn um opinber fjármál. Það var auðvitað ekki einhugur í þingsal um þær fjármálareglur sem urðu að lögum í lagarammanum þar sem miðað er við tiltekinn heildarjöfnuð, tiltekna skuldastöðu og sett ákveðin skilyrði. Um þetta var talsvert tekist á í þessum sal þegar við ræddum lögin um opinber fjármál og þau voru gagnrýnd af ýmsum hagfræðingum fyrir nákvæmlega þetta atriði, þ.e. fjármálaregluna sem slíka. Fjármálareglur sem slíkar sem eru settar í lögum um opinber fjármál eru gríðarlega pólitískar reglur. Þetta eru ákveðin hagstjórnarmarkmið sem ég hefði talið eðlilegt að væru ekki lögbundin með þeim hætti sem er gert í lögum um opinber fjármál, heldur væru þau hluti af fjármálastefnu hverrar ríkisstjórnar. Mér finnst í sjálfu sér óeðlilegt að lögbinda slík markmið á þann hátt sem gert var í lögum um opinber fjármál. Ég tel að þau hindri svigrúm ríkisstjórnar á hverjum tíma til þess að nýta hagstjórnina til sveiflujöfnunar.

Við sjáum það strax á þessari tillögu að stefnu sem hér er lögð fyrir að nákvæmlega þannig birtast þessi lögbundnu markmið. Ég ætla ekki að kalla hæstv. fjármálaráðherra einan til ábyrgðar fyrir því, þetta er auðvitað samkvæmt lögum sem voru samþykkt á Alþingi af meiri hluta á sínum tíma, en ég tel að alls ekki hafi farið fram nægjanleg umræða um markmiðin, til að mynda úti í samfélaginu. Það má segja að hún hafi verið mjög af skornum skammti þó að einstaka fjölmiðlar hafi tekið þessi mál upp. Þarna er í raun og veru verið að lögbinda tiltekna hagstjórnarstefnu. Alveg sama hvaða skoðun maður hefur pólitískt þá getur maður velt því upp hversu eðlilegt það er að lögbinda slíka stefnu. Á sínum tíma var því svarað til að það gæti þá verið nýs meiri hluta að endurskoða markmiðin, en ég les þessa tillögu sem svo að ekki sé vilji til að breyta markmiðunum. Það er kannski ekki skrýtið í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn fer fyrir ríkisstjórninni og lagði mikla áherslu á þessi markmið á sínum tíma.

Af hverju hef ég áhyggjur af þessum fjármálareglum? Jú, ég tel að þær bindi mjög hendur framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins til þess að taka ákvarðanir um innspýtingu í þau kerfi sem við teljum að þarfnist innspýtingar. Við sjáum það strax á þessari tillögu sem ég benti á áðan í stuttu andsvari að hún er mjög aðhaldssöm. Hér er lögð til mjög aðhaldssöm stefna. Áherslan er fyrst og fremst á að niðurgreiða skuldir og fjármagna lífeyrisskuldbindingar eins og kemur fram í 3. lið. Það er ekki lagt til að nýta einskiptisgreiðslur inn til þess að fara í einhvers konar innspýtingu í samgöngumál þrátt fyrir gríðarlega uppsafnaða þörf á því sviði. Hér er sett ákveðið markmið um að heildarútgjöld verði ekki umfram 41,5% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu.

Við erum oft ekki að tala um sömu hlutina þegar við ræðum hvað við eigum við þegar við tölum um útgjöld ríkisins. Heildarútgjöld ríkisins eru í raun og veru allt sem fer úr ríkissjóði, þar með talið vaxtagjöldin, millifærslukerfið, fjárfestingar. Allt slíkt. Tökum sem dæmi búvörusamninga sem gætu heyrt undir millifærsluna. En þegar við tölum um samneysluna þá eigum við við það sem við getum kallað rekstur stofnana ríkisins; heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir eða hvað það er. Þegar við reynum að átta okkur á samneyslunni, þ.e. rekstri og þjónustu eins og hún er skilgreind af Hagstofunni, þá var samneyslan á árinu 2015 23,61%. Það er samneysla hins opinbera, þetta sem við erum alltaf að tala um í þessum sal, sem er í senn okkar stóra bitbein en líka áherslumál, það eru velferðin, menntakerfið, þessi mikilvægu mál fyrir allan almenning í landinu.

Samneyslan hefur farið niður á við hér á landi. Við sjáum það klárt og kvitt þegar við skoðum hvernig samneyslan hefur verið að þróast hér og þegar við berum þróunina á Íslandi saman við önnur Norðurlönd. Þegar Íslendingar tala um að velferðarkerfið sé ekki jafn öflugt hér og annars staðar á Norðurlöndum og að menntakerfið sé ekki jafn öflugt hér og annars staðar á Norðurlöndum, þetta er sígild umræða, sjáum við það svart á hvítu þegar við berum saman samneysluna í þessum ríkjum. En við verðum líka að átta okkur á því að tekjuöflunin er með öðrum hætti. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að greiðsluþátttaka sjúklinga er hærri hér er annars staðar á Norðurlöndum. Skattarnir, hinir almennu skattar, eru líka hærri annars staðar á Norðurlöndum en hér, en á móti kemur meiri þjónusta og lægri gjöld á sjúklinga.

Þetta er auðvitað grundvallar pólitískt spursmál. Því hefur nú stundum verið haldið fram að vinstri og hægri séu úrelt hugtök í pólitískri umræðu, en þetta eru lykilhugtök þegar við ræðum stefnumótandi plagg á borð við þá ríkisfjármálastefnu sem hér hefur verið lögð fram. Hún endurspeglar í grundvallaratriðum muninn á vinstri og hægri, því hún er íhaldssöm. Hér er ekki lögð til aukin tekjuöflun til lengri tíma. Það kom skýrt fram hjá hæstv. ráðherra í framsögu hans áðan að ekki væri fyrirhugað að auka tekjuöflun, hugsanlega að breyta tekjuöfluninni en ekki auka hana. Á sama tíma eru sett skýr viðmið um heildarútgjöld sem segja þó ekki alla sögu því þau endurspegla ekki þennan þátt samneyslunnar.

Ef við miðum við það sem stendur í greinargerð, sem snýst um að heildarútgjöld muni ekki aukast, þá getum við dregið þá ályktun að samneyslan muni þar af leiðandi ekki aukast frá því sem hún er á árinu 2015, 23,61%. Á sama tíma erum við með opinbera fjárfestingu sem hefur verið í sögulegu lágmarki. Um það er ekki deilt. Það eru bara staðreyndir. Sú opinbera fjárfesting sem við höfum séð hefur kannski fyrst og fremst farið fram í gegnum opinber félög í eigu ríkisins. Það er ástæðan fyrir því að það er algjörlega ófullnægjandi ástand í samgöngumálum. Það skiptir engu máli hvort við erum að tala um ástand vega, fjölda einbreiðra brúa, snjómokstur eða nýframkvæmdir. Hér sameinuðust þingmenn úr öllum flokkum fyrir örfáum mánuðum um metnaðarfulla samgönguáætlun sem ekki var svo fullfjármögnuð í fjárlögum þessa árs. Við sjáum ekki neinar stórar breytingar á því í þessari ríkisfjármálastefnu.

Nú er það rétt sem hæstv. ráðherra kom að í framsögu sinni áðan að við getum ekki rætt einstaka málaflokka fyrr en við fáum ríkisfjármálaáætlun. Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að hún mun verða til umræðu í mars/apríl eða þar um bil. Þá fáum við auðvitað miklu betra tækifæri til þess að ræða hina einstöku málaflokka. Hér erum við með hinar stóru línur. En ég hef verulegar áhyggjur af því ef ætlunin er að halda í raun óbreyttri ríkisfjármálastefnu fyrri ríkisstjórnar því að það hefur komið fram að þannig liggur í því. Þetta er nánast óbreytt stefna. Þá sjáum við ekki fram á þá uppbyggingu sem ég held að almenningur kalli eftir. Nú er alltaf vandmeðfarið að tala fyrir munn einhvers óskilgreinds almennings, en þó höfum við ýmislegt til að byggja á. Ég nefni 86.000 undirskriftir Íslendinga sem skrifuðu með opin augu undir þá kröfu að framlög til heilbrigðismála ættu að fara upp í 11% af vergri landsframleiðslu. Hér hafa hv. þingmenn í gegnum þá umræðu sagt: Ja, vissi fólk eitthvað hvað það var að skrifa undir? Jú, vitið þið, ég hef alveg trú á því að fólk viti vel hvað það er að gera þegar það kýs í kosningum eða skrifar undir slíkar kröfur. Ég held að fólk viti bara ósköp vel hvað það er að gera. Ég hef trú á fólki. Þetta er krafa frá almenningi í landinu ef við getum orðað það þannig. Við verðum ekki við þeirri kröfu ef Alþingi ætlar að fylgja þessari stefnu, eða ég segi nú meiri hluti Alþingis. Mér er til efs að minni hlutinn, a.m.k. ekki Vinstri hreyfingin – grænt framboð, muni kvitta upp á þessa stefnu. Þá komum við ekki til móts við kröfur almennings í landinu um verulega aukin útgjöld til heilbrigðismála.

Ég hef líka áhyggjur af því að menntamálin fái ekki þau auknu framlög sem þau sannarlega þurfa ef meiri hlutinn ætlar að standa við þær væntingar sem hann er búinn að gefa um að efla öll skólastig, hvernig sem hann ætlar að fara að því, því að ekki eru þau nú öll á hendi ríkisins, ef við tökum bara einfalda hluti eins og OECD-viðmiðin og Norðurlandaviðmiðin þegar kemur að fjármunum á hvern nemanda. Nema þessi nýja ríkisstjórn ætli líka að taka upp stefnu fyrri ríkisstjórnar um að fækka hreinlega nemendum. Það verð ég að segja að er ekki nógu metnaðarfull stefna að mínu viti ef við ætlum að efna til sóknar í þeim málaflokki.

Tími minn er útrunninn, frú forseti. Ég hef því ekki fleiri orð að sinni.