146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þekkir lög um opinber fjármál þar sem þessar fjármálareglur eru settar, þ.e. að heildarjöfnuðurinn yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður, árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu og fleiri slík skilyrði. Gagnrýni okkar í Vinstri grænum er sú að með því að setja slík hagstjórnarleg skilyrði í lög sé verið að setja pólitíska stefnu inn í lagaramma. Við teljum, þó að því hafi verið haldið fram, og það kemur auðvitað fram í greinargerð, að ef einhvers konar áföll ríða yfir, og við getum velt fyrir okkur hver ætli að skilgreina þau áföll — að það sé óþarfi að við mörkum framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma jafn þröngan ramma um þá hagstjórn sem framkvæmdarvaldið á hverjum tíma vill beita, því að lög hafa að sjálfsögðu gildi.

Okkar skoðun er sú að það væri mun eðlilegra að slíkar reglur, þó að þær séu ekki þau sömu og Maastricht-skilyrðin, væru á einhvern hátt sambærilegar reglur. Maastricht-skilyrðin má rökstyðja þannig að þau skipta máli fyrir alþjóðlegt samstarf nokkurra þjóða þar sem þarf að hafa einhvers konar slík skilyrði. En þar sem við erum ekki í slíku alþjóðlegu samstarfi spyr ég: Af hverju er það ekki ríkisstjórnarmeirihluta á hverjum tíma að setja sér sín hagstjórnarmarkmið fremur en að binda í lög frekar aðhaldssöm hagstjórnarmarkmið um tiltekinn halla, tiltekna skuldastöðu, tiltekinn afgang, sem felur að okkar mati í sér takmarkanir á getu ríkisins til þess að jafna sveiflur? Það er stóra gagnrýnin á fjármálareglurnar.

Raunar voru önnur atriði í þessum lögum sem ég hefði gert athugasemdir við og ég nefndi áðan í andsvari. Þær varða fyrst og fremst við framkvæmd laganna sem varða aðhaldshlutverk Alþingis. Ég get kannski komið að því í seinna andsvari við hv. þingmann.