146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu til nýrrar fjármálastefnu til næstu fimm ára sem sett er samkvæmt lögum af nýrri ríkisstjórn í upphafi kjörtímabils. Það er gott að geta rætt það á fyrstu þingdögunum. Aðstæður sem uppi eru í samfélaginu þekkjum við vel og koma fram í greinargerðinni. Nú hefur verið eitt það lengsta hagvaxtarskeið sem við höfum upplifað og miklar og jákvæðar breytingar hafa orðið á kjörum fólks bæði með hækkun launa, auknum kaupmætti launa, ráðstöfunartekna, ásamt verulega bættri stöðu ríkissjóðs og þeirri staðreynd að nú eru tekjur og eignir staða þjóðarbúsins í fyrsta skipti jákvæðar frá upphafs lýðveldistíma. Það kemur því ekki á óvart að hér sé haldið áfram með þá fjármálastefnu sem verið hefur í gildi og þessi nýja ríkisstjórn reynir að setja mark sitt á stefnu næstu ára. Það sem miðað er við eru grunngildi fjármálastefnunnar þar sem liggja til grundvallar orð eins og sjálfbærni, þannig að skuldbindingar verða viðráðanlegar og ekki eru lagðar ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir, varfærni í fjármálum og að leitað verði eftir efnahagslegum stöðugleika. Eins og við þekkjum er verið að leita eftir festu í áætlanagerð og einnig gagnsæi í því sem ríkið setur fram með því að leggja fram áætlunargerð til nokkurra ára.

Það er held ég af því góða. Við höfum rætt það í þinginu um allnokkurt skeið. Fyrir þó nokkuð mörgum árum voru sett hér lög um sveitarstjórnir. Þar voru settar inn fjármálareglur. Ég gagnrýndi það á þeim tíma, líklega 2010, að það væri merkilegt ef við í þinghúsinu gætum sett öðrum skýrar reglur um hvernig skynsamlegt væri að menn færu með opinbert fé, þ.e. sveitarfélögin, en treystum okkur ekki til að gera það sjálf. Það höfum við síðan gert núna og smátt og smátt er að koma mynd á þetta, þó þannig að stofnefnahagsreikningur fyrir ríkissjóð, sem birta á samhliða þessu, verður ekki til fyrr en næsta haust.

Þær fjármálareglur sem við miðum við, afkomuregla og skuldareglan sem og skuldalækkunarregla, eru allar uppfylltar, eða skuldareglan verður uppfyllt á árinu 2019, ef ekki fyrr. Það er ein spurning sem spyrja þarf, þ.e. hvort við gerum það of hratt miðað við aðrar áætlanir ríkisins og áherslur ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu innviða. Auðvitað er hugsunin sú, og hún er skynsamleg, að lækka skuldir, og þar með vexti og afborganir ríkissjóðs til þess að skapa varanlegt svigrúm til þess að geta farið í útgjaldaaukningu í einstökum málaflokkum.

Það sem mig langar að ræða hérna er hvernig sú stefna, sem við munum síðar sjá fjármálaáætlun byggða á, verður útfærð, hvernig hún rímar við önnur áform ríkisstjórnarinnar um innviðauppbyggingu. Þar spilar auðvitað margt inn í. Þar er fjármálastefnan eitt sem af henni leiðir, fjármálaáætlun, peningastefna Seðlabankans er svo annar þáttur sem þarf auðvitað að ríma við þessa þætti. Gengisþróunin á landinu sem hefur verið með þeim hætti að gengið hefur styrkst um 15% á síðasta ári, 13% frá því í mars, og gríðarlega umfangsmikil hefur orðið hækkun frá því 2009 eftir að gengisfallið varð. Nú er svo komið að gengisþróunin er farin að hafa veruleg áhrif á allar atvinnugreinar sem og vaxtastigið í landinu. Það þarf líka að spila saman við losun hafta. Það þarf líka að spila saman við vinnumarkaðinn og vinnumarkaðsmódelið sem menn hafa verið að reyna að koma hér á, því að allt miðar þetta að því að vera einhvers konar jöfnunartæki, hagstjórnartæki, til þess að koma á stöðugleika og vinna þar af leiðandi gegn þenslunni. Hér er lagt mikið upp úr því og ítrekað nokkrum sinnum að sýna þurfi varfærni og festu. Ég hef einnig heyrt það á ræðum stjórnarþingmanna.

Þess vegna er það nokkuð merkilegt ef maður kíkir síðan aðeins á greinina á afkomumarkmiðin, með leyfi forseta. Ég vitna hér í það sem stendur á bls. 5:

„Með þessari stefnu um viðvarandi afgang er unnt að vinna gegn þenslu í þjóðarbúskapnum og viðhalda efnahagslegum stöðugleika sem, samhliða ráðstöfunum eigna, verði nýttur til að lækka skuldir hins opinbera niður fyrir lögbundið skuldahlutfall.“

Aftur skynsamlegt, hversu hratt á það að gerast miðað við þau útgjaldaáform sem menn eru með uppi, en skynsamlegt að framfylgja þeim reglum sem við setjum okkur sjálf.

Aðeins síðar á þessar blaðsíðu:

„Við mat á framvindu opinberra fjármála þarf að hafa í huga að undanfarin ár hafa efnahagsaðstæður hér á landi verið hagfelldar og verða áfram miðað við fyrirliggjandi hagspár. Þótt stefnan feli í sér afgang á heildarjöfnuði fyrir hið opinbera á tímabilinu má rekja stóran hluta þess afgangs til hagsveiflunnar. Ætla má að ef leiðrétt væri fyrir henni væri afkoma ríkissjóðs í járnum.“

Með öðrum orðum, þau útgjöld sem við höfum þegar samþykkt hérna á þinginu taka í raun og veru allan þann bata sem þó hefur orðið, að því undanskildu að hér er gríðarleg hagvaxtarsveifla. Ef hún breytist vegna einhverra utanaðkomandi þátta, hvort sem væri nú náttúruhamfarir eða annarra þátta sem menn hafa nefnt hér, t.d. áframhaldandi gengisstyrking, þá getur þetta gjörbreyst.

Því kemur þessi setning síðar í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Af þeim sökum væri óvarlegt að stofna til nýrra og varanlegra útgjalda á grundvelli þessa afgangs og má segja að gild rök standi til þess að nýta bata í fjármagnsjöfnuði til niðurgreiðslu skulda fremur en að lækkandi vaxtagjöld leiði til vaxtar frumgjalda.“

Það er akkúrat vandinn. Þetta plagg eitt og sér er skynsamlegt til þess að búa til festu og stöðugleika, en á sama tíma er ríkisstjórnin uppi með áform um veruleg útgjöld, aukningu í heilbrigðismálum, í menntamálum, í samgöngumálum og öðrum þáttum. Hvernig verður það samrýmanlegt öðruvísi en að velta fyrir sér auknum tekjum? Einhverjum breytingum á sköttum? Við erum háskattaland í dag. Eru byrðarnar sanngjarnar? Er skynsamlegt að fara í endurskoðun á skattkerfinu? Það er vitað mál að millitekjufólk er að borga hærri skatta hlutfallslega á Íslandi en á Norðurlöndunum. Er ekki skynsamlegt að fara í endurskoðun á því og hugsanlega jafna byrðarnar eitthvað aðeins öðruvísi þó svo að það myndi hafa það í för með sér að skattar á þá sem hæstar tekjur hafa myndu hækka að einhverju leyti, til að mynda þá sem hafa fulla atvinnu af því að versla með fé? Þeir sem eiga 100 kindur þurfa að reikna sér reiknað endurgjald, en sá sem vinnur við að versla með annars konar fé þarf ekki að reikna sér endurgjald; hann borgar bara fjármagnstekjuskatt. Hann borgar ekkert útsvar til sveitarfélagsins og hann borgar þar af leiðandi bara það hlutfall af því sem hann borgar í fjármagnstekjuskatt. Er það nokkuð sem hæstv. fjármálaráðherra gæti velt fyrir sér til að auka tekjurnar og eiga þar af leiðandi möguleika á því að fara í vaxandi útgjöld án þess að það rýri þessa stefnu?

Fjallað er um ferðaþjónustuna í þessu plaggi og einnig í þeim gögnum sem fjármálaráðuneytið birti í dag í greiningarvinnu sem sett var af stað í tíð síðustu ríkisstjórnar varðandi hvað hægt væri að gera til þess að koma í mótvægisaðgerðir vegna styrkingar krónunnar. Væri hugsanlegt að setja á komugjöld í ferðaþjónustu eða fara yfir ferðaþjónustuna og styrkja þá grein með einhverjum hætti? Það þarf auðvitað að gera í ferðaþjónustunni, því sífellt hækkandi gengi veldur því að líka ferðaþjónustan verður fyrir áhrifum af styrkingu krónunnar en ekki bara hinar útflutningsgreinarnar.

Það er líka ljóst að það þarf að hafa samhæfða og heildstæða stefnu í fjármálum hins opinbera, ekki bara ríkissjóðs heldur í fjárfestingum opinberra fyrirtækja. Talað er um það í þessu plaggi að mikil þensla sé á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum séð það áður, bæði launaskrið og þensla á húsnæðismarkaði. En er staðan sú sama annars staðar (Forseti hringir.) á landinu? Á að fara að draga úr fjárfestingum Landsnets varðandi raforkuöryggi, samgöngur úti á landi, vegna þess að það er þensla á höfuðborgarsvæðinu? Á að fara að draga úr útgjöldum (Forseti hringir.) Isavia og uppbyggingu þeirra á Leifsstöð til þess að draga úr ferðaþjónustunni? Eða á að draga úr útgjöldum Isavia á öllum öðrum flugvöllum á landinu? Það eru spurningar (Forseti hringir.) sem við munum spyrja þegar fjármálaáætlunin kemur fram. Við munum halda áfram að spyrja þessara spurninga og vonumst til að fá svör. En stóra spurningin er þessi: Hvernig samrýmist það að fara í innviðauppbyggingu og leggja fram þetta plagg?