146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir athugasemdir hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur. Það er 15. október 2015 sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir og fleiri þingmenn óska eftir skýrslu um sundurliðun á þessari svokölluðu skuldaleiðréttingu en skýrslan birtist svo heilum 19 mánuðum eftir að hennar er óskað, sem er út af sig stórkostlega ámælisvert. En fram kemur svo síðan að þegar hv. þm. Katrín Jakobsdóttir spyr eftir þeirri skýrslu í þingsal í október 2016 er skýrslan raunar tilbúin, en hún kemur ekki fyrir sjónir Alþingis eða þjóðarinnar fyrr en þremur mánuðum síðar, þ.e. eftir kosningar, eftir að ríkisstjórn er mynduð þannig að í raun og veru fá kjósendur ekki öll gögn á borðið í aðdraganda kosninga.

Ráðherrann er uppvís að því í annað sinn að halda vísvitandi upplýsingum frá almenningi í aðdraganda kosninga. Það er fráleitt að þingið sætti sig við þessa framkomu og að ráðherra viðhafi slíka leyndarhyggju ítrekað og ráðherra hafi í raun og veru, þáverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra, beitt þjóð og þing blekkingum. Þetta eru vinnubrögð fyrir neðan allar hellur, virðulegi forseti.