146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er hér með tvær bækur, Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og þingsköp. Mér finnst mega minna á það í þessari umræðu að þetta er ekki bara einhver siðferðisleg krafa eða réttur sem þingmenn eiga og eðlilegir mannasiðir að ráðherrar svari, þetta er stjórnarskrárvarinn réttur Alþingis til þess að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Það er einfaldlega tekið fram í 54. gr. stjórnarskrárinnar að alþingismönnum er heimilt að krefja ráðherra svara um opinber málefni með fyrirspurn eða beiðni um skýrslu. Þetta er síðan útfært nánar í 49. gr. þingskapa. Þar er vísað í 14. gr. stjórnarskrárinnar og þá ábyrgð sem ráðherrar bera á stjórnarframkvæmdum.

Það er grafalvarlegt þegar ráðherra telur sig geta tekið sér sjálfdæmi og vald í sínar hendur fram hjá stjórnarskrá og þingskapalögum, eins og hann eigi sjálfdæmi um það hvort hann svari skýrslubeiðnum og þá hvenær. Málið er miklu alvarlegra en svo að (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson og þáverandi fjármálaráðherra geti borið við gleymsku eða dómgreindarskorti, eins og hæstv. núverandi fjármála- og efnahagsráðherra Benedikt Jóhannesson útlistaði að þetta væri á sinni tíð.

(Forseti hringir.)Svo óska ég Bjartri framtíð sérstaklega til hamingju með hið nýja hlutverk, að verja nú bætt vinnubrögð með þeim hætti sem við fengum að heyra hér áðan. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)