146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er eitt sem ég hjó eftir í stjórnarsáttmálanum sem var kynntur hér, að talað var mikið um sátt og samlyndi í kjölfarið. Þar segir neðst á fyrstu síðu þar sem teknar eru saman áherslur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun í öllum störfum sínum hafa í heiðri góða stjórnarhætti og gagnsæja stjórnsýslu.“

Nú skulum við vona að þetta séu ekki bara orðin tóm hjá þeim þingmönnum stjórnarflokkanna og ráðherrum sem eru hér í salnum, að menn meini þetta, að þeir vilji góða stjórnarhætti. Ef svo er hljóta menn að vera sammála því að það eru ekki góðir stjórnarhættir að hæstv. ráðherra geti geymt skýrslu og ekki skilað henni þegar það er kveðið á um eftirlitsskyldu okkar þingmanna gagnvart framkvæmdarvaldinu í stjórnarskrá og svo útfært í lögum um þingsköp.

Ef það er virkilega þannig að þessi ákvæði eru bara ekkert virk, hafi ekkert bit, að ráðherra geti bara (Forseti hringir.) ákveðið að virða þau ekki, þurfum við líka að fá það á hreint. Mér var sagt á síðasta kjörtímabili að virðulegur forseti Alþingis eigi að skera úr um lög um þingsköp og ekki sé hægt að vísa því til dómstóla. Það var mér sagt af forseta þá. (Forseti hringir.) Þetta er á borði forseta Alþingis núna, að skera úr um þetta svo við fáum að vita það.