146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að æsa umræðuna frekar upp. Mér finnst fólk taka ansi djúpt í árinni í umræðunni af hæpnu tilefni. Ég tel að athugasemdir vegna tímasetningar birtingar þeirra skýrslna sem hér um ræðir geti átt rétt á sér og eigi heima hér í þingsölum. Ég held að við getum tekið umræðu um það hér og fundið farveg fyrir það í þingstörfunum að ræða það hvernig þessi mál bar að. Þingmenn eiga rétt á að koma á framfæri athugasemdum af þessu tagi. Ég held að það væri gagnlegt ef við reyndum það og eins að ræða efnisatriði þessara skýrslna, því að þau skipta líka máli og þarf ekki að fara í grafgötur með að sú umræða á líka erindi í þingið.

Ég mæli því með því að menn slaki aðeins á og að við reynum sameiginlega í þinginu að finna farveg til þess að ræða þessa hluti öðruvísi en í upphrópunarstíl undir liðnum fundarstjórn forseta.