146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

takmörkun á ferðafrelsi íslensks ríkisborgara.

[14:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og hv. þingmaður vísaði til ræðum við stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum í sérstakri umræðu á eftir og munum þá vafalaust koma að þessu máli. Það eru nokkuð margar fyrirspurnir hjá hv. þingmanni. Ég ætla að reyna að fara yfir það helsta þannig að vonandi kemur þá skýr mynd á það sem hv. þingmaður spyr um.

Ég tók þetta mál upp á fundi með aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í morgun og fulltrúa sendiráðsins, bæði hvað varðaði þennan einstakling en sömuleiðis þá einstaklinga sem eru með tvöfalt ríkisfang. Staðan er einfaldlega þessi: Þetta var góður og upplýsandi fundur. Sjónarmið okkar mættu skilningi. Það fer ekki á milli mála að þau fara beint til stjórnvalda í Bandaríkjunum. Mér fannst mikilvægt að koma þessum skilaboðum skýrt og milliliðalaust á framfæri og m.a. þess vegna áttum við þennan fund.

Það sem snýr að framkvæmdinni á þessu er að í ljós kemur að það koma nokkuð misvísandi skilaboð frá hinum ýmsu löndum. Það er ákveðin biðstaða í bandarísku stjórnkerfi vegna stjórnarskiptanna. Ég er bjartsýnn á að menn þar vestra, og það eru þeir sem ráða framkvæmdinni á þessu, muni reyna að vinna bug á þessu sem fyrst. Það þarf ekkert að hafa mörg orð um það að þetta er ekki ásættanleg staða sem viðkomandi einstaklingur sem hv. þingmaður vísar í er í og aðrir sem eru í svipaðri stöðu.

Þetta er hins vegar nokkuð sem við fáum að vita og kemur í ljós núna á næstu dögum. Við gerum allt hvað við getum í íslensku utanríkisþjónustunni til þess að hjálpa okkar (Forseti hringir.) ríkisborgurum. En við höfum hins vegar ekki vald til að framkvæma þessa tilskipun, eðlilega.