146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

takmörkun á ferðafrelsi íslensks ríkisborgara.

[14:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Auðvitað er málið miklu stærra en það sem ég var sérstaklega að spyrja um. Það verður rætt hér á eftir og snýst um grundvallarréttindi borgaranna til að ferðast á milli staða. Við erum minnt á það með áþreifanlegum hætti hversu dýrmætt ferðafrelsið er okkur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega um það sem snýr þá að íslenskum ríkisborgurum, þ.e. fólki með tvöfalt ríkisfang. Það var tekið upp á fundi í morgun. Verður þessum mótmælum fylgt eftir með einhverjum frekari hætti? Eins og ég skil það teljast það formleg mótmæli sem færð eru fram með munnlegum hætti við erindreka annars ríkis, og hæstv. ráðherra má gjarnan staðfesta það. En verður eitthvað frekar aðhafst? Hæstv. ráðherra hefur rætt að hugsanlega verði farið í samstarf við Norðurlöndin. Nú liggja fyrir frekari fréttir þar sem norrænir ríkisborgarar fá sömu meðferð og íslenskir ríkisborgarar, þ.e. séu þeir með tvöfalt ríkisfang, verður þá eitthvað sérstakt aðhafst á þeim vettvangi?

Ég ítreka (Forseti hringir.) það sem varðar — það er rétt sem hæstv. ráðherra segir: Við erum ekki ábyrg fyrir framkvæmd þessarar tilskipunar. En hvernig getum við tryggt að þeir flugrekstraraðilar sem hér eru starfandi, og fjöldi manns millilendir hér á leiðinni til Bandaríkjanna, séu sem best upplýstir um hvað bíður?