146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

takmörkun á ferðafrelsi íslensks ríkisborgara.

[14:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það var strax á sunnudagsmorgun sem ég tjáði mig um afstöðu íslenskra stjórnvalda í þessu máli. Þá þegar hóf íslensk utanríkisþjónusta að starfa til að reyna að vinna úr þessum málum, fá upplýsingar og sömuleiðis að hjálpa þeim einstaklingum sem um ræðir og íslenska utanríkisþjónustan mun halda því áfram. Hv. þingmaður getur verið alveg viss um það. Við gerum það sem við getum og í okkar valdi stendur til að koma þessum málum í eins góðan farveg og mögulegt er.

Mótmælunum hefur verið komið á framfæri með skýrum og afdráttarlausum og milliliðalausum hætti. Síðan munum við vinna með sendiráðum okkar, og höfum verið í sambandi við þau um heiminn, og sömuleiðis bandaríska sendiráðinu og bandarískum stjórnvöldum. Við munum gera hvað við getum til að fylgja þessum málum eftir. Hv. þingmaður getur verið alveg viss um að alveg eins og menn hafa unnið mjög mikið núna á þessum tveimur sólarhringum verður þeirri vinnu haldið áfram.