146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um meðferð á föngum.

[14:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég hef grun um að hæstv. utanríkisráðherra verði upptekinn í þessum fyrirspurnatíma. Ég deili áhyggjum margra þingmanna af nýliðnum embættisathöfnum Donalds Trumps, en mig langar að deila fleiri áhyggjum mínum með þingheimi og með ráðherra. Ég hef áhyggjur af því að forseti Bandaríkjanna sé fasisti, kvenhatari og rasisti, en ég hef sérstakar áhyggjur af yfirlýstum vilja og áhuga Bandaríkjaforseta á að hefja aftur pyndingar sem eru glæpir gegn mannkyni og stríðsglæpir sem varða við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum, Genfarsamninginn og Rómarsáttmálann að sjálfsögðu. Ég hef sérstakar áhyggjur af því að Bandaríkjaforseti muni opna að nýju leynifangelsi út um allan heim til þess að geta þar stundað pyndingar á yfirlýstum óvinum bandaríska ríkisins og meintum hryðjuverkamönnum þar sem hann virðist trúa á gildi og getu pyndinga til þess að ná fram að sögn mikilverðum upplýsingum.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í það hvað hann hyggist gera til þess að tryggja að sagan endurtaki sig ekki, að við tökum ekki aftur beinan þátt í því að hjálpa Bandaríkjaforseta að fremja stríðsglæpi eins og við gerðum hér og eins og kom í ljós í skýrslu 2007 að Ísland væri að öllum líkindum meðsekt í flutningi fanga í leynifangelsi víðs vegar um heiminn. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra að því hvort hann deili þeim áhyggjum mínum. Hvað hyggst hann gera til þess að koma í veg fyrir að íslenskir flugvellir verði millilendingarstaður fyrir fangaflug Bandaríkjanna eins og allar líkur eru á að þeir hafi verið í tíð forvera Trumps, George Bush yngri? Hvað ætlar hann að gera til þess að koma í veg fyrir að það gerist? Hvernig ætlum við að tryggja að við tökum ekki þátt og eigum ekki hlutdeild í stríðsglæpum eins og við gerðum hér um árið?