146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um meðferð á föngum.

[14:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er ekkert hæpið við það að utanríkisráðuneytið gerði skýrslu þar sem fram kom að um 200 flugvélar, sem voru tengdar alríkisþjónustunni í Bandaríkjunum, CIA, áttu hér millilendingu sem hafa verið tengdar við fangaflug. Það var aldrei staðfest í skýrslu utanríkisráðuneytisins að fangar hefðu verið um borð. Það þótti of dýrt og erfitt að spyrja Bandaríkjamenn bara hreint út hvort þeir hefðu verið með fanga um borð í þessum flugvélum.

Pyndingar er mjög afmarkað fræðilegt hugtak sem sú sem hér stendur hefur stúderað nokkuð örugglega. Það að ætla að hefja aftur vatnspyndingar eins og Donald Trump hefur lýst yfir, eru stríðsglæpir. Það að ætla að hefja aftur að nota sömu yfirheyrslutækni og George Bush notaði, eru stríðsglæpir. Það eru pyndingar. Það er ekkert gildishlaðið við það. Þetta er fræðilegt orð. Ég spyr: Ætlum við að gera eitthvað til þess að tryggja að hér lendi ekki flugvélar sem mögulega eru með fanga um borð á leið í fyrirhuguð leynifangelsi Donalds Trumps?