146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

yfirlýsingar Bandaríkjaforseta og framtíð NATO.

[14:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Hv. þingmaður fór yfir málaflokk í ræðu sinni sem verður fyrirferðarmeiri í umræðunni hjá okkur á næstunni, því miður, það eru öryggis- og varnarmálin. Það sem hefur gerst á undanförnum árum er einfaldlega að menn voru að vonast til þess að við þyrftum ekki jafn mikið á þeim að halda og var hér áður. Hins vegar hefur umræðan af ýmsum ástæðum, sem sumpart komu fram í fyrirspurn hv. þingmanns, gert það að verkum að allar aðildarþjóðir NATO horfa meira til þess samstarfs en þau hafa gert áður. Sömuleiðis liggur það alveg fyrir að menn höfðu trú á því að það myndi skila árangri að nálgast þjóðarleiðtogann Pútín með öðrum hætti en var áður. Núna er það þannig að þeir stjórnmálaleiðtogar sem hafa haft trú á því að það væri hægt að treysta öllu því sem þaðan kæmi hafa orðið fyrir mikill gagnrýni.

Þegar kemur að stjórnarskiptunum í Bandaríkjunum er það hins vegar áberandi í málflutningi bæði verðandi varnarmálaráðherra og utanríkismálaráðherra og sömuleiðis varaforseta Bandaríkjanna að stefna Bandaríkjanna sé ekki breytt varðandi NATO. Sama kom fram eftir fundi núverandi Bandaríkjaforseta og forsætisráðherra Breta, það væri alveg ljóst að skuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart Atlantshafsbandalaginu væru algerlega óbreyttar. Ef ég man rétt, virðulegi forseti, kom það líka fram í því sem haft var eftir úr samtölum núverandi Bandaríkjaforseta og Merkel. Það er ánægjuefni því að NATO, Atlantshafsbandalagið, er afskaplega mikilvæg stofnun og ekki síður núna en áður.