146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

mengun frá kísilverum.

[14:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þessa fyrirspurn og upplýsi hér með að ég hef haft miklar áhyggjur af þessu máli. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum er Umhverfisstofnun með kísilverksmiðjuna United Silicon í hálfgerðri gjörgæslu. Umhverfisstofnun hefur fundað með sóttvarnalækni sem einnig hefur fylgst vel með. Sá fundur var vegna ábendinga um lykt, um hugsanleg heilsufarsleg áhrif vegna áhrifa frá þeim útblæstri sem hv. þingmaður lýsir hér vel. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá sóttvarnalækni og í gegnum Umhverfisstofnun var ekki að merkja aukningu á veikindum á svæðinu sem rekja mætti til aukinnar mengunar frá verksmiðjunni. En eins og ég nefndi áðan hefur eftirlitið verið mikið. Það hófst strax í kjölfar útgáfu starfsleyfis og við munum halda áfram að kalla eftir upplýsingum frá fyrirtækinu um þau atriði sem snúa að rekstri verksmiðjunnar. Það var raunar það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom í ráðuneytið.

Varðandi Thorsil er það líka áhyggjuefni. Ég hef sagt það opinberlega og segi það aftur: Ég er lítt hrifin af þessum kísilverum. Ég hefði óskað þess að stjórnvöld sem tóku ákvörðun um að veita þessum fyrirtækjum ívilnanir og leyfi til að setja framkvæmd sína í gang hér á Íslandi hefðu ekki gert það. Ég verð hins vegar að virða stjórnskipun landsins en get þó huggað hv. þingmann og legg áherslu á það að við munum fylgjast mjög vel með þessum verksmiðjum. Við munum ekki veita áframhaldandi starfsleyfi ef þær fara fram úr þeim mengunarleyfum sem þær þó hafa samkvæmt leyfum frá fyrri ríkisstjórn.