146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[14:48]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur fyrir að haft frumkvæðið að þessari sérstöku umræðu. Það hefur komið mjög skýrt fram allt frá því að þetta mál fór af stað, í máli allra þeirra stjórnarliða sem hafa tjáð sig um það, að íslensk stjórnvöld eru á móti ferðabanni Bandaríkjaforseta. Þetta er ekki, og það hefur líka komið skýrt fram, alls ekki í anda þess frjálslyndis sem íslensk stjórnvöld standa fyrir. Við höfum líka sagt skýrt að sú leið sem Bandaríkjaforseti fer hér er alls ekki góð leið til þess að berjast gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi.

Núna þegar þetta er orðið raunin er nauðsynlegt að við reynum að skilja hvaða þýðingu þetta hefur. Staðreyndin er sú að það er ákveðið uppnám í Bandaríkjunum enda óljóst hvað þetta þýðir í framkvæmd til lengri tíma litið. Þess vegna fór ég strax fram á það sem formaður utanríkismálanefndar að þess yrði farið á leit við utanríkisráðuneytið að það skoðaði hvert lagalegt gildi tilskipunar Trumps væri og hvernig útfærslan á henni yrði til skemmri og lengri tíma, hvaða áhrif þessar aðgerðir hefðu haft eða kynnu að hafa á íslenska ríkisborgara til lengri og skemmri tíma og hvort einhverjir hefðu orðið eða gætu orðið strandaglópar hér á landi vegna þessara aðgerða og hvert umfangið gæti þá orðið.

Það er verið að vinna í þessu. Upplýsingaöflun er m.a. til þess fallin að auðvelda stjórnvöldum að fjalla með upplýstum og yfirveguðum hætti um þetta mál.

Herra forseti. Við þurfum að horfa heildstætt á málið. Við verðum að tala af festu fyrir þeim gildum sem við sem frjálslynt samfélag stöndum fyrir, fyrir mannréttindum og fyrir mikilvægi þess að við stöndum vörð um réttarríkið. Við verðum að tala og koma fram af ábyrgð og yfirvegun. Það gerum við með því að leita nauðsynlegra upplýsinga um málin og, byggt á þeim upplýsingum, ákvarða rétt og trúverðug viðbrögð. Þannig sýnum (Forseti hringir.) við gott fordæmi og pössum upp á trúverðugleika okkar. Heift leysir ekki heift.