146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[14:58]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Eitt merkasta skjal kalda stríðsins er símskeyti sem George Kennan, sem var sendiráðsfulltrúi í sendiráði Bandaríkjanna í Moskvu, sendi til utanríkisráðherra síns í febrúar 1946 þar sem hann sagði að Sovétríkin væru andlýðræðislegt afl gegn frjálslyndum viðhorfum með fyrirætlan um útbreiðslu þess um heimsbyggðina. Lagði Kennan til að rétt nálgun af hálfu Bandaríkjanna væri að stöðva útbreiðslu kommúnismans. Það varð svo stefnan.

Nú þykir mér ljóst að ný ríkisstjórn Bandaríkjanna er ekki einangrað fyrirbæri heldur hluti af útbreiðslu nýs andlýðræðislegs afls gegn frjálslyndum viðhorfum á Vesturlöndum. Það er rétt að við spyrjum okkur hver séu eðlileg viðbrögð Íslands. Auk fordæmingar á andlýðræðislegum stjórnarháttum og kerfisbundnum mannréttindabrotum þarf Ísland að marka sér viðhorf til lands sem óðum þróast í efnahagslega og menningarlega einangrunarstefnu, elur á útlendingahatri og trúarofstæki og enginn veit í dag hversu langt hún mun ganga. Munu Bandaríkin draga sig út úr NATO eða ganga gegn skuldbindingum sínum við NATO? Munu Bandaríkin segja sig úr Sameinuðu þjóðunum, eins og hótað hefur verið, eða að breyta eðli samskipta sinna við þau? Munu Bandaríkin snúa baki við fríverslun? Hvað verður þá um Alþjóðaviðskiptastofnunina? Hvað um aðrar alþjóðlegar stofnanir? Framtíðin er óljós um öll þessi mál. Það skiptir máli að fá svör.

Í sumu af þessu felast þó tækifæri fyrir Ísland, í öðru áhætta en í öllu þessu er alveg gríðarleg óvissa. Það væri því ráð að utanríkisráðherra skipaði einhvers konar viðbragðshóp til að vinna að sviðsmyndum um þetta, aðgerðaáætlun, bæði í þágu hagsmuna Íslands og í þágu hagsmuna mannkynsins. Hvað mun Ísland gera til að stöðva útbreiðslu þessa andlýðræðislega afls?