146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[15:04]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Þær fréttir bárust í gær að Íslendingur, íslenskur ríkisborgari, hefði verið stoppaður á leið til Bandaríkjanna þar sem hann átti að keppa fyrir Íslands hönd á íþróttamóti. Þessu hljótum við öll að mótmæla kröftuglega. Það er þessi samkoma hér sem veitir mönnum rétt til íslensks ríkisfangs, annaðhvort beint eða óbeint gegnum stjórnkerfið, ekki ríkisstjórnir annarra landa.

Í gær heyrði ég forsætisráðherra Ástralíu lofa því að Ástralar í þessari stöðu myndu komast klakklaust til Bandaríkjanna. Forsætisráðuneyti Bretlands gaf út svipaða yfirlýsingu. Hvort þessi loforð haldi er svo annað mál en það hlýtur að vera krafa að okkar stjórnvöld vinni að sama markmiði, að erlendar ríkisstjórnir flokki ekki okkar eigin borgara eftir uppruna þeirra.

Bandaríkin eru á margan hátt alveg stórkostlegt ríki. Þau leiddu baráttuna gegn alræði kommúnismans. Það er þar sem margar hugmyndir, frjálslyndar hugmyndir, fæðast og þróast, hvort sem um er að ræða frelsi kvenna, umhverfisvernd, réttindi samkynhneigðra eða afstaða til vímuefna. Þeirra staða á alþjóðavettvangi hefur að mínu mati gert heiminn betri, frjálslyndari. En nú er hætta á að þar verði breytt um kúrs.

Í ræðu sinni í breska þinginu sagði David Cameron þegar hann talaði um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, hann var á móti útgöngu eins og ég, að nú væri enginn tími til að splundra upp vestrinu. Þar er ég sammála honum. Því miður virðist sem sú bylgja sem gengur yfir muni ekki leiða af sér eitthvert algleymi fríverslunarsamninga heldur öllu verri stefnu. Það er ekki gott. Og í ljósi þess sem á undan hefur gengið er nauðsynlegt fyrir okkur að huga vel að því að rækta vel aðrar stoðir, ekki bara þessa bandarísku stoð heldur aðrar stoðir okkar utanríkisstefnu, og þá á ég við norrænt samstarf og samstarf annarra Evrópuríkja.