146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[15:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérstakt að vera að ræða hér stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum þar sem segir í þjóðsöng Bandaríkjamanna: Land hinna frjálsu og hugrökku. Manni finnst ekkert margt frjálst og hugrakkt í gangi í Bandaríkjunum núna, sérstaklega ekki hjá nýkjörnum forseta. Það virðast frekar vera einhverjar hugmyndir um innilokun, hræðsla við það sem er óþekkt í hans augum og hvernig hann geti komist hjá því að kynnast því.

Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að styrkja og styðja vel við bakið á okkar ágæta utanríkisráðherra í þeirri vegferð sem er fram undan. Ég held að ráðherrann hafi gert ágætt í því að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. En hafandi setið í þessu ráðuneyti veit ég að það þarf að halda því áfram. Ég ber fullt traust til þess að ráðherrann geri það.

Það er svolítið sérstakt að heyra og sjá að menn skuli vera í afneitun í Bandaríkjunum um loftslagsvandann. Við vitum þó að það eru tugir ef ekki hundruð ríkja sem ætla að halda áfram að bera þann kyndil. Verði Bandaríkin ekki með er það þeirra vandamál og okkar hinna að sjálfsögðu líka en við gefumst ekkert upp. Það eru önnur ríki sem myndu bera kyndilinn og vera þar í fremstu víglínu.

Ég hef áhyggjur af viðskiptunum, að sjálfsögðu, eins og allir aðrir. Ég hef líka áhyggjur af mannréttindunum. Þetta eru undarleg skilaboð sem koma frá landi hinna frjálsu og hugrökku, en eins og hæstv. ráðherra sagði er vinur sá sem til vamms segir. Við þurfum að halda því áfram.

Ég hef áhyggjur af því hvers konar stefnu þessi nýja stjórn muni taka þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Þau hafa verið einn af lykilþáttunum í samskiptum okkar við Bandaríkin. Það er ekki ljóst hvað þar gerist. Það er hins vegar algerlega óásættanlegt ef íslenskir ríkisborgarar eru settir á lista eða fá ekki að ferðast sökum uppruna síns, hvar þeir eru fæddir eða eiga tengsl. Ég veit það og treysti því að hæstv. ráðherra muni standa vörð um réttindi þeirra eins og réttindi okkar allra.

En þetta er lýðræðið í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn kusu þessa stjórn. Við fáum litlu um það breytt.