146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

sjúkratryggingar.

80. mál
[15:19]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Eins og við höfum heyrt hafa þær upplýsingar komið fram að þörf er á að fresta gildistöku þessara laga þar sem tölvukerfin eru ekki tilbúin. Sjúkratryggingar Íslands og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins eru sammála því að ekki sé nægur tími til að innleiða breytingarnar fyrir 1. febrúar, sem er á morgun.

Ástæðan fyrir frestuninni virðist vera sú að reglugerðirnar eru ekki fullbúnar eða þá aðallega reglugerðin um nýtt tilvísanakerfi. Það virðast vera frekar skiptar skoðanir um hvort reglugerðin um greiðsluþátttökukerfið sé tilbúin eða ekki, sem er í sjálfu sér mjög furðulegt mál þar sem Sjúkratryggingar Íslands vilja meina að hún sé ekki tilbúin en ráðuneytið segir að hún sé tilbúin. Það er eitthvað sem þarf sjálfsagt að skoða.

Samkvæmt Sjúkratryggingum Íslands er þörf á þremur mánuðum frá setningu reglugerðar um greiðsluþátttökukerfi til að undirbúa kerfisbreytinguna og tryggja farsæla innleiðingu. Mér finnst áhyggjuefni að ráðuneytið ætlist til þess að lögin geti tekið gildi 1. maí þegar óvissa ríkir um hvort reglugerðin sé í raun og veru sett.

Í umsögn sinni um frumvarpið varpa Sjúkratryggingar Íslands því fram að mikil óvissa sé til staðar vegna fjármagns til verkefnisins og bent er á að ekki hafi verið gert kostnaðarmat við endanlega ráðstöfun milljarðsins sem samþykkt var að ráðstafa til kerfisbreytingarinnar. Einnig vanti upplýsingar um mögulega fjárvöntun stofnana ríkisins vegna greiðsluþátttökukerfisins. Í umsögn SÍ segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt fyrirliggjandi áætlun er fjárvöntun sjúkratrygginganna samkvæmt nýja kerfinu vegna samningsbundinnar þjálfunar og lækniskostnaðar 1,6–2,0 millj. kr. Þessi fjárvöntun endurspeglar mismun heildarverðs og hlutdeildar sjúkratryggðra í kostnaði þjónustunnar.“

SÍ segist vera að endurútreikna áætlaðan heildarkostnað við innleiðingu nýja greiðsluþátttökukerfisins og ætti niðurstaðan að liggja fyrir síðar í vikunni. Ég hef beðið ráðuneytið um upplýsingar um kostnaðarmat og mögulega fjárvöntun og bíð eftir svörum.

Það atriði sem sló mig mest í þeirri upplýsingaöflun sem fór fram á þeim allt of stutta tíma sem velferðarnefnd fékk til að rannsaka þetta mál var lýsing landlæknis á reglugerðinni um greiðsluþátttökukerfið. Landlæknir tók það skýrt fram að reglugerðin sem hann fékk í hendurnar væri svo flókin að hann gæti ekki lesið hana sér til gagns. Reglugerðin var honum óskiljanleg. Ég tel það með öllu óásættanlegt að gagnsæi ríki ekki í reglugerðum. Hvernig getur almenningur verið upplýstur um réttindi sín þegar reglugerðin er óskiljanleg? Svona ógagnsæi vekur upp grun um að verið sé að fela eitthvað og grefur undan trausti á stjórnsýslunni. Ég vona innilega að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að þetta verði lagað og mæli með að hann setjist niður með landlækni sem sagðist vera með hugmyndir um hvernig væri hægt að einfalda reglugerðina.

Annar liður í þessum lögum er nýtt tilvísanakerfi sem virðist samkvæmt Sjúkratryggingum Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vera enn flóknara að innleiða en greiðsluþátttökukerfið þar sem þörf er á því að forrita nýtt viðmót frá grunni. Þar hefur komið fram hjá Sjúkratryggingum Íslands að þörf sé á sex mánuðum frá setningu reglugerðar til að koma kerfinu í gagnið en sú reglugerð hefur heldur ekki verið sett. Á móti hefur komið fram að það verður hægt að handskrifa tilvísanir ef tölvukerfið er ekki tilbúið á tilsettum tíma.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur lýst yfir áhyggjum sínum af því að hún sé ekki í stakk búin til að taka á móti þessum tilvísunum sökum fjárskorts og manneklu en landlæknir hefur lýst því yfir að betra sé að byrja að nota tilvísanakerfið samhliða nýju greiðsluþátttökukerfi þrátt fyrir að viðmótið verði ekki fullklárað og telur víst að heilsugæslan muni fljótt aðlagast nýju kerfi.

Mér finnst mikilvægt að árétta að bæði Sjúkratryggingar Íslands og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins telja að réttast sé að innleiða greiðsluþátttökukerfið eins fljótt og mögulegt er en til þess að kerfið fái ekki óþarfagagnrýni á sig væri best að innleiða greiðsluþátttökukerfið þann 1. maí en bíða aðeins með tilvísanakerfið og leyfa sérfræðingum að þroska það eftir að reglugerðin hefur verið sett. Það þykir mér í fljótu bragði virka sem skynsamleg lausn og mun beita mér fyrir því að sá valmöguleiki verði skoðaður innan nefndarinnar.

Eins og kemur í ljós er margt sem þarf að fylgjast með á næstu mánuðum þar til þessi lög taka gildi. Til þess að nefndin geti sinnt eftirlitshlutverki sínu hef ég farið fram á að fá nákvæma útlistun yfir þau verkefni sem þarf að klára til þess að lögin geti tekið gildi þann 1. maí auk tímalínu fyrir hvern þátt verkefnisins. Ég hef einnig beðið um að fá mánaðarlegar upplýsingar frá ráðuneytinu um stöðu verkefnisins. Ég fékk mjög ónákvæm svör frá ráðuneytinu varðandi verkefnið og bað því um nánar tímasetta áætlun eða einhvers konar flæðirit og fékk eftirfarandi svör, með leyfi forseta:

„Það er ekki til tímaflæðirit eða nánar tímasett áætlun hér, því miður. Reglugerðirnar verða vonandi tilbúnar á næstu dögum og Sjúkratryggingar eru að vinna forritunina eins hratt og unnt er.“

Ég velti því fyrir mér hvernig ráðuneytið fari að því að vinna að jafn viðamiklu verkefni og hafa yfirsýn án þess að hafa neina tímasetta áætlun. Þetta finnst mér ekki vera traustvekjandi vinnubrögð og skilst mér að hv. formaður nefndarinnar, Nichole Leigh Mosty, sé sammála mér. Ég vænti þess að hún muni einnig beita sér fyrir því að ráðuneytið skili til nefndarinnar viðunandi upplýsingum til að gera nefndinni kleift að fylgjast almennilega með málavöxtum.

Það hefur komið skýrt fram að þörf er á því að fresta gildistöku þessara laga til 1. maí og styð ég þá ákvörðun nefndarinnar en ég mun fylgjast grannt með þessu máli og halda áfram að þrýsta á eftir upplýsingum og hvet aðra nefndarmenn til að gera slíkt hið sama.