146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

sjúkratryggingar.

80. mál
[15:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er miður að það skuli þurfa að koma til þess að fresta gildistöku þessarar kerfisbreytingar sem á sér langa forsögu og góð pólitísk samstaða tókst þrátt fyrir allt um að innleiða hér á þingi síðastliðið vor eftir mikla vinnu í þáverandi velferðarnefnd. Sú pólitíska samstaða helgaðist af því að ákveðið var að verja meiri fjármunum í að innleiða þessa kerfisbreytingu í stað þess að frumvarpið eins og það kom fram gerði ráð fyrir að þetta yrði í raun og veru kostnaðarhlutlaust þannig að þökin sem verðu einstaklinga fyrir óheyrilega miklum heilbrigðiskostnaði yrðu í reynd greidd með aukinni greiðsluþátttöku hinna sem sjaldnar fara til læknis og báru minni kostnað áður.

Lagt var upp með að þau þök yrðu yfir 90 þúsund kr. og síðan greiðslur aldraðra og öryrkja og barnafólks 2/3 af því, sem hefði þýtt að stórir hópar hefðu tekið á sig talsvert aukinn kostnað í kerfinu. Það töldum við óásættanlegt mörg hver. Það sama gilti um ýmis samtök sjúklinga og á vinnumarkaði. Niðurstaðan varð sú að ráðstafa auknum fjármunum inn í kerfið þannig að þökin færu ekki yfir 50 þús. kr. í kostnað á ári.

Að öðru leyti var samstaða um að drífa málið í gegn sem eina heild, bæði þakið á heilbrigðiskostnaðinn og þann vísi að tilvísunarskyldu sem þarna kemur til sögunnar og er útfærður þannig að heimilt verður að lækka kostnað barnafólks fari það til sérfræðinga eða á aðra staði í sérhæfðari heilbrigðisþjónustu með tilvísun frá heimilislækni eða heilsugæslustöð.

Báðar breytingarnar eru að mínu mati mjög mikilvægar. Þær fylgdust að í þessu máli og mun ég leggja áherslu á að þær geri það áfram.

Margir vilja koma þessum vísi að tilvísunarskyldu fyrir kattarnef. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn eða hópa í þeim efnum. Því miður er það svo að það er eins og minni áhersla hafi verið lögð á að undirbúa innleiðingu þess hluta málsins, enda kannski að einhverju leyti viðameira en innleiðing kostnaðarþakanna.

Eftir stendur að það eina sem er til ráða nú og ég tel að sé skynsamlegt er það sem hér er lagt til, að við frestum þá gildistöku málsins í heild sinni til 1. maí og vonum að mönnum vinnist vel á næstu vikum og mánuðum þannig að ekki þurfi að koma til frekari frestana. Ef við segjum það á mannamáli held ég að þeir sem að því vinna hafi gott af því að finna þann þrýsting frá Alþingi að við viljum að þessi breyting komist til framkvæmda sem fyrst. Það er að mínu mati afar mikilvægt.

Þessu áttu að fylgja, og að einhverju leyti hefur verið við það staðið, fjármunir og stuðningur til heilsugæslunnar þannig að hún gæti eflt sig og undirbúið betur undir þetta hlutverk og staðið þar með betur undir nafni sem fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Þannig hefur heilbrigðiskerfi okkar lengi verið hugsað og meiningin hefur verið að það væri þannig uppbyggt. En á því hafa verið brotalamir eins og við þekkjum. Að mörgu leyti koma jákvæðar fréttir frá heilsugæslunni, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, að hún sé mun betur í stakk búin til að takast á við þetta hlutverk nú en fyrir ári síðan. Það er fagnaðarefni. Þá verðum við að vona að sömuleiðis sjúkratryggingarnar geti sett allan kraft í að innleiða þessar breytingar allar saman þannig að þær nái fram að ganga 1. maí.

Ef eitthvað annað kemur upp á tímanum fram að 1. maí ætlar velferðarnefnd sér hvort eð er að fylgjast náið með framvindu málsins og verður þá til staðar til þess að grípa til ráðstafana ef nauðsynlegt verður.

Ég vil svo segja fyrir mitt leyti að þetta er auðvitað bara skref, áfangi á lengri ferð, sem miðar að því að gera kerfi okkar að þessu leyti réttlátara, sanngjarnara. Það var og er í reynd enn skelfilega óréttlátt hversu misjafnt þessi kostnaður getur dreifst. Við þekkjum fréttirnar af óheyrilegum útgjöldum sem langveikir sjúklingar eða fjölskyldur þeirra geta lent í í óbreyttu fyrirkomulagi. Það er gersamlega óverjandi í landi sem vill vonandi hafa öflugt opinbert heilbrigðiskerfi sem veitir öllum þjónustu, helst algerlega án tillits til efnahagslegra aðstæðna, að minnsta kosti í það miklum mæli að það valdi ekki því að menn verða að neita sér um þjónustuna eða þurfa að setja sig á hausinn ef áföll verða í heilbrigðismálum innan fjölskyldna.

Það sem þarf að gera er ekki bara að klára þetta mál og innleiða það, þá er sá áfangi orðinn að við erum komin með þök á bæði lyfjakostnað, annars vegar í sjálfstæðu fyrirkomulagi, og hins vegar á annan heilbrigðiskostnað. Hvort tveggja er mikil framför. En æskilegast væri auðvitað að fella þetta saman undir eitt heildarþak þannig að heilbrigðiskostnaður, óháð því hvort hann fellur til vegna lyfjakaupa eða vegna þess að menn fara til sérfræðinga, þurfa í rannsóknir og svo framvegis, væri undir einu samræmdu þaki. Þá þarf að fella inn það sem út af stendur, eins og tannlæknakostnað og ég nefni ferðakostnað sjúklinga af landsbyggðinni. Auðvitað á hann líka að vera undir þaki að þessu leyti. Annað er mismunun. Í sumum tilvikum á grundvelli búsetu, í öðrum tilvikum af einhverjum öðrum ástæðum.

Þá fyrst gætum við sagt með sanni að við værum búin að ná almennilega utan um þetta mál þegar allur þessi heilbrigðistengdi kostnaður, hvort sem er vegna lyfja eða annarra heilbrigðisútgjalda eða vegna þess að menn þurfa að sækja sér þjónustu með dýrum ferðalögum, og óháð því hvers eðlis veikindin eru, væri komin undir eitt samræmt kostnaðarþak. Það þak þarf að vera hóflegt og í gegnum þetta þyrfti að nást árangur í því að draga úr heildarkostnaði einstaklinga við rekstur heilbrigðiskerfisins. Hann er of hár á Íslandi eins og kunnugt er og þarf nú ekki að rifja það upp fyrir hv. þingmönnum sem allir voru í kosningabaráttu í októbermánuði síðastliðnum. Þá stóð upp úr hverjum manni að stórefla þyrfti heilbrigðiskerfið og að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga. Þá þarf til þess peninga. Þeirra þarf þá að afla ef við ætlum ekki að sækja þá í vasa sjúklinga. Svo einfalt er það mál. Þá reynir á hverjir standa við stóru orðin og hverjir gufa upp og sér undir iljarnar á þegar menn þurfa að horfast í augu við að loforðin kosta sitt.

Við sjáum til með það.

Það er rétt sem hér kom fram í umræðum að því miður gæti verið um að ræða nokkurt vanmat á því hvað innleiðingin kostar. Svo kann að vera að sá 1 milljarður króna sem er í fjárlögum ársins hrökkvi ekki til, jafnvel þótt breytingin taki ekki gildi fyrr en 1. maí heldur sé hún jafnvel það miklu dýrari þegar allt er saman tekið að þetta dugi ekki einu sinni til að starfrækja kerfið í átta mánuði á þessu ári.

Þá hafa menn tímann fram undir vorið til þess að fara betur ofan í saumana á því. Alþingi stendur þá frammi fyrir því einhvern tíma í mars, apríl, ef meiri fjármuni vantar, meiri fjárheimildir inn á þetta ár til að geta lagt af stað 1. maí næstkomandi, og þá tökumst við á við það.

En miðað við aðstæður, sem eru auðvitað ekki þær sem við hefðum óskað okkur, mæli ég með því að menn fallist á það sem hér er lagt til af velferðarnefnd, að gildistöku breytinganna í heild sinni verði frestað til 1. maí og að þetta verði ekki aðskilið heldur verði reynt að klára þetta saman sem einn pakka.