146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

sjúkratryggingar.

80. mál
[15:39]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um breytingu á lögum nr. 77/2016, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum, frestun gildistöku. Þetta er sem sagt frestun gildistöku um lægri kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og frestun á innleiðingu tilvísanakerfis í heilbrigðiskerfinu sem snýr að því að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað sjúklinga.

Það er auðvitað ekki gott að við þurfum að fresta gildistökunni en það er nauðsynlegt í ljósi aðstæðna. Við vitum öll að hér voru sérstakar aðstæður sl. haust. Hér voru haustkosningar og fólk var á fullu í kosningabaráttu og fleiri verkum. Reglugerð kom seint inn frá fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra. Hún fór í ákveðið um umsagnarferli. Athugasemdir komu sem bregðast þurfti við og reglugerðin var lögð fram aftur. Það er hluti ástæðunnar fyrir því að við verðum að fresta þessu máli.

Ég vil hvetja núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra til að ganga rösklega til verks þannig að við þurfum ekki að fresta aftur gildistöku þessara mikilvægu ákvæða því að það skiptir líklega mjög marga máli hér í landinu. Eitt helsta markmið þessara laga er að koma í veg fyrir mjög mikinn kostnað hjá mörgum einstaklingum sem hafa t.d. verið að glíma við erfiða, langvinna sjúkdóma. Við höfum öll fengið fréttir af krabbameinssjúklingum sem þurfa að borga mörg hundruð þúsund krónur á ári fyrir meðferð. Þegar lögin taka gildi munu þau girða fyrir þann mikla kostnað sem sjúklingar hafa sjálfir þurft að standa straum af.

Ég, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, var í velferðarnefnd sl. vor þegar málið var til efnislegrar vinnslu þar. Það var gaman að sjá þá þverpólitísku vinnu unnin sem var innan nefndarinnar vegna málsins þar sem allir hv. þingmenn í hv. velferðarnefnd lögðu sig fram við að koma málinu í gegnum nefndina í eins mikilli sátt og hægt var, og það tókst. Þegar umrætt frumvarp kom til hv. velferðarnefndar var hámarksþak greiðsluþátttöku einstaklinga um 90 þús. kr. Það gátum við hv. þingmenn í velferðarnefnd ekki sætt okkur við. Í samvinnu við þáverandi starfandi hæstv. ráðherra fjármála- og heilbrigðismála náðum við þó að koma þakinu niður í 50 þús. kr. En síðan var annar þáttur sem við höfðum áhyggjur af í málinu, þ.e. hvort heilsugæslan væri í stakk búin til að taka við því hlutverki að verða fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Við fengum, eins og gerist í störfum Alþingis, fjölda gesta á fundi þar sem ýmsir sérfræðingar og starfsmenn í greininni lýstu áhyggjum af því að heilsugæslan væri ekki í stakk búin til að taka við þessu hlutverki.

Því er ánægjulegt að segja það hér líka að það tókst að fá fjármagn til þess að styrkja heilsugæsluna til að ráða inn sérfræðinga og lækna til þess að stytta biðtíma, enda þekkjum við öll að hafa pantað tíma hjá lækni og jafnvel þurft að bíða í tvær vikur. Manni er eiginlega batnað þegar kemur að tímanum af því að biðtíminn er svo langur. En það tókst að setja inn fjármagn til að styrkja þetta hlutverk heilsugæslunnar.

Sem hv. þingmaður í umræddri nefnd á síðasta kjörtímabili hafði ég samband við forsvarsmenn nokkurra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og spurði þá hvernig gengið hafi að styrkja það hlutverk heilsusgæslunnar að vera fyrsta viðkomustaður fyrir sjúklinga. Ég fékk þau svör að það hefði ekki gengið nógu vel. Ég vona að sá tími, þeir þrír mánuðir sem við frestum gildistöku laganna, dugi til þess að við horfum til heilbrigðiskerfisins í heild sinni, að við lítum til þess að við erum með mjög öflugar heilbrigðisstofnanir víða um landið með styrkar stoðir sem starfrækja heilsugæslustöðvar.

Mig langar að lokum að segja að ég er sammála hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Sérstaklega tek ég undir það sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þetta eru bara fyrstu mikilvægu skrefin á þeirri leið sem við ætlum að fara. Hér erum við að lækka greiðsluþátttökuþakið. Við verðum að horfa til þess hvernig við náum að koma fleiri þáttum í greiðsluþátttökukerfið, og þá að hafa eitt þak fyrir lyf og læknisþjónustu. Sálgæslan má ekki gleymast eða ferðakostnaður sjúklinga, tannlækningar og fleiri þættir. En það ber að fagna þeim stóru skrefum sem stigin voru í þverpólitískri sátt. Það er ánægjulegt og ég vona svo sannarlega að lögin taki gildi 1. maí og að við þurfum ekki að fresta þeim aftur. Þegar þetta er orðið að lögum getum við horft fram á veginn og haldið áfram að bæta inn þáttum og styrkja heilbrigðisþjónustuna.