146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[16:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar að blanda mér aðeins inn í umræðu um þessa þingsályktunartillögu um þingnefnd um fríverslunarsamninga sem við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggjum öll fram í okkar nafni og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur mælt fyrir og farið efnislega vel yfir. Ég ætla ekki að endurtaka neitt það sem fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni í ræðu minni. Það eru þó tvö atriði í raun sem mig langar að hnykkja enn frekar á vegna þess að ég held að þau séu mjög mikilvæg inn í þessa umræðu og tengjast því beint og rökstyðja það að mínu áliti að skipa sérstaka þingnefnd til þess að fjalla um og kafa ofan í þessa stóru alþjóðlegu fríverslunarsamninga sem Ísland hefur tekið þátt í viðræðum um eða gæti orðið fyrir áhrifum af.

Eins og fram hefur komið hefur sú leynd sem hefur hvílt á þessum samningum verið gagnrýnd talsvert og það hefur ekki verið nema fyrir stóra gagnaleka frá til að mynda Wikileaks sem almenningur og raunar stjórnmálamenn líka hafa fengið upplýsingar um innihald samninganna.

Nú er það svo að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, setti í ráðherratíð sinni inn á vef utanríkisráðuneytisins ýmsar upplýsingar sem snúa að áherslum Íslands og samningsmarkmiðum. Þetta var auðvitað að einhverju leyti viðbragð við gagnrýni um leyndina sem hvílir á þessum samningum og var auðvitað gott svo langt sem það þó náði því að þar með vitum við hver eru markmið Íslands, en vandinn er sá að við erum engu nær um samningsmarkmið annarra ríkja. Við vitum í rauninni ekkert um það hvað viðmælandinn leggur áherslu á nema hann hafi til að mynda líka gert upplýsingar opinberar eða þeim hafi verið lekið. Það er þetta sem að hluta til er svo erfitt við að eiga þegar kemur að þessum samningum að bæði kjörnir fulltrúar sem og allur almenningur á fyrir vikið mjög erfitt með það að fylgjast með umræðunni og að móta sér skoðun.

Það er hins vegar gríðarlega mikil þörf fyrir góða og upplýsta umræðu um þessi mál. Ég held að þingmannanefnd sé einmitt rétti vettvangurinn því þar eiga, eins og hér er lagt til, allir flokkar sem sitja á Alþingi sæti við borðið. Þar er hægt að kafa ofan í málið frá mörgum og ólíkum sjónarhornum og hægt að kalla til alls konar gesti og sérfræðinga og eyða tíma í málið sem ég tel alveg útséð með að verði hægt að gera í fastanefnd. Þó svo að hv. utanríkismálanefnd sem ég raunar á sæti í geti verið ansi dugleg þegar á þarf að halda þá held ég, líkt og kom fram í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, að ekki sé raunhæft að fastanefnd geti eytt þeim tíma sem ég teldi að væri æskilegt í þetta eina og tiltekna mál.

Svo er önnur ástæða fyrir því að ég tel að sé gott að fara í umræðu í þingnefnd núna þegar umræðurnar eru í gangi vegna þess að í málum sem lúta að alþjóðaviðskiptasamningum þá er afgreiðslumátinn alltaf svo að á endanum er það hæstv. ráðherra sem skrifar undir samninginn með svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara um samþykkt Alþingis, svo kemur málið til þingsins. Þannig að í rauninni stendur Alþingi frammi fyrir orðum hlut sem er miklu erfiðara að snúa af vegna þess að það er búið að skrifa undir, það væri þá Alþingis að ógilda í raun undirskriftina. Þess vegna verður umræðan í þingsal oft svo mikil eftiráumræða. Það hefur mér alltaf fundist bagalegt. Ég átta mig alveg á því að að sumu leyti er erfitt við þetta að eiga því að það er utanríkisráðherra sem fer með það vald að skrifa undir alþjóðasamninga fyrir hönd íslenska ríkisins, en þeim mun frekar er mikilvægt að búið sé að taka góða og ítarlega umræðu um málið áður en kemur til þess að skrifa undir.

Síðan ég tók sæti á Alþingi, fyrst sem varaþingmaður og svo þingmaður, hafa tvisvar sinnum að því er mig minnir farið fram sérstakar umræður um þetta mál. Þar vitum við öll að ræðutíminn hjá öllum er gríðarlega knappur. Það gefst enginn tími til að kafa eitthvað djúpt ofan í málin. Það gefst í rauninni einungis tækifæri til þess að koma með athugasemdir og segja afstöðu sína.

Það hvernig alþjóðasamningar eru unnir og gerðir og hvernig frá þeim er gengið er að mínu mati enn ein rökin fyrir því af hverju það eigi að setja málið í þennan farveg því að ef til þess kemur að hæstv. ráðherra skrifi undir samning og Alþingi taki afstöðu til þess hvort við viljum vera aðili að slíkum samningi þá höfum við eitthvað í höndunum. Við höfum þekkingu á málunum út frá breiðum sjónarmiðum þar sem geta togast á hagsmunir ýmissa samfélagshópa og alls konar pólitísk sjónarmið, en við höfum heildaryfirsýn. Það er m.a. þess vegna sem ég vona svo sannarlega að þetta mál nái fram að ganga.