146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[16:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu í dag og var búinn að kynna mér efni þingsályktunartillögunnar. Ég vil fyrst segja að mér finnst mjög gott að hv. flutningsmenn ræði um fríverslunarsamninga almennt og fríverslun. Ég skal alveg viðurkenna að mér fannst kannski vanta svolítið í greinargerðina eitthvað varðandi jákvæða þætti þess sem fylgja fríverslunarsamningum. Það var a.m.k. sá kafli sem fór fram hjá mér.

Ég vona að hv. þingmenn taki það ekki illa upp en mér finnst skipta máli að við séum meðvituð um það að Ísland væri enn þá mjög fátækt land ef við hefðum ekki aðgang að erlendum mörkuðum og værum ekki með opna markaði. Þegar við tölum um það að við viljum hjálpa þeim löndum sem eru fátækari þá getum við ekki hjálpað þeim til sjálfshjálpar nema við veitum þeim aðild að okkar mörkuðum. Svo einfalt er það mál. Þetta á ekki bara við um það að þjóðir brjótist úr fátækt. Þetta snýr náttúrlega líka að því að við höldum áfram þeirri velmegun sem hér er og vonandi aukum við hana og aukum tækifæri fólks til að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Það gerum við með því að opna m.a. fyrir fríverslun. Menn hafa iðulega talað um þetta í tengslum við tolla. Það er í rauninni mjög gömul nálgun. Það er mjög langt síðan, getum við getum sagt, að viðskiptablokkirnar hafi farið að koma sér upp tæknilegum viðskiptahindrunum. Það er það sem hefur mest með helstu hindranirnar í fríverslun að gera í heiminum í dag. Við sjáum það í samstarfinu í EES, við sjáum það t.d. þegar vörur koma annars staðar að, t.d. matvörur, þá þurfum við að líma á þær einhverja skrýtna miða með nákvæmlega sömu upplýsingum og eru á pakkningunum nú þegar. Þetta er auðvitað eins óskynsamlegt og hægt er. Þetta þýðir að fólk þarf með einhverjum hætti, ef ekki eru til vélar til að gera það, að líma upplýsingar sem eru til staðar. Er það einungis gert vegna þess að Evrópusambandið hefur reynt að vernda sjálft sig með þeim hætti að hafa þessar stöðluðu upplýsingar.

Evrópusambandið er ekkert eitt í því. Þetta gildir almennt. Þetta er það sem menn eru iðulega að reyna að koma í veg fyrir í fríverslun og það eru tveir skólar í því, annars vegar að samræma alla staðla sem ég tel vera mjög erfitt ef menn ætla að ná fríverslun í heiminum og hins vegar hitt sem ég tel vera skynsamlegra, að það séu gagnkvæm réttindi á kerfum viðkomandi landa, ef það er einhvers konar þýðing á „mutual recognition“, virðulegi forseti.

Mér finnst hins vegar mjög gott að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, 1. flutningsmaður, vísaði til þess að við beittum okkur og við höfum bæði áhuga á því að ræða þessa samninga á vettvangi þingmannanefnda EFTA og EES, en ég var formaður og hv. þingmaður varaformaður nefndarinnar. Við fengum mjög góða umfjöllun að mér fannst og mikið af upplýsingum. Það var svolítið skrýtið að þegar kom að þeim samningum voru Bandaríkjamenn viljugri til að gefa okkur upplýsingar en Evrópusambandið, jafn skrýtið og það nú er. Það lagaðist síðan m.a. út af þeirri gagnrýni sem við höfðum í tengslum við það. En því miður held ég að þessi samningur — og það er ekki út af nýlegum kosningaúrslitum í Bandaríkjunum, ég held að það sé svolítið síðan menn urðu mjög svartsýnir á að þetta gæti gengið upp, ekki síst vegna mikilla mótmæla í Evrópu út af þessum samningum. Ég held að þeir séu ekki á neinni fleygiferð.

Það er kannski aukaatriði í málinu í því sem ég ætlaði að koma á framfæri og velta inn í þessa umræðu. Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að utanríkismálanefnd geti, eins og hér hefur komið fram, fjallað um þetta allt saman. Hún getur kallað inn fólk og getur fjallað um málefni þegar hún vill. Ef einhver nefndarmaður, hv. þingmaður í utanríkismálanefnd, vill fjalla um það þá er það bara gert. Menn geta fundað eins mikið og þeir vilja í utanríkismálanefnd. En hins vegar tel ég að við séum löngu komin á þann stað, og ég hef verið þeirrar skoðunar mjög lengi, að við eigum að skipta þessu í tvennt. Annars vegar erum við með utanríkismálanefnd sem sinnir utanríkismálefnum og síðan eigum við að hafa eina EES/EFTA-nefnd sem mundi sinna EES-tilskipunum og fríverslunarmálunum okkar. Ég vonast til þess að við munum sjá einhvern kraft í fríverslun á næstunni. Ég er þokkalega vongóður um það. Það er mjög mikilvægt að við ræðum það á þessum vettvangi hér og við séum meðvituð um hvað þetta þýðir, m.a. út af alls konar sjónarmiðum sem eru uppi. Það er mjög mikilvægt að fólk viti hvað fríverslun felur í sér og hversu mikil áhrif hún hefur á líf fólks. Sumir sem berjast gegn hinni svokölluðu alþjóðavæðingu tala um að hún sé t.d. að skaða hag þeirra sem minna hafa. Það er enginn sem mun tapa meira á því en fátækt fólk ef fríverslun stöðvast, ég tala ekki um ef menn ganga til baka. Ástæðan fyrir því að margar vörur eru ódýrari núna en áður er sú að þær eru fluttar inn frá löndum sem geta framleitt þær með hagkvæmari hætti en við gerum. Við Íslendingar framleiddum miklu meira á sínum tíma en við gerum núna. Þegar við gengum í EFTA á sínum tíma datt hins vegar ýmislegt út sem var til staðar, en við fengum hlutina ódýrari og jafnvel betri en núna. Á móti gerði það að verkum að það sem við gerðum betur, við komum því inn á aðra markaði. Allir högnuðust á þessu til langs tíma. Þó má færa rök fyrir því að þegar svona breyting verður hafi það áhrif. Það er þá hvers þjóðfélags fyrir sig að reyna að búa þá aðila sem verða fyrir slíkum áföllum undir það og hvetja þá og hjálpa því fólki til að sinna öðrum störfum en þeir sinntu áður.

Ég velti þessu bara inn í umræðuna og vonast til að sú umræða hafi eitthvað þroskast. Ég hef oft talað um þetta áður og velti því hér til hv. flutningsmanna hvort ekki væri skynsamlegra að hafa tvær fastar þingnefndir, annars vegar utanríkismálanefnd og síðan EES/EFTA-nefnd sem væri þá m.a. með fríverslunarsamningana, því að það er auðvitað heilmikið umfang. Það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn og þjóðin öll séu mjög meðvituð um hvað það felur í sér. Að vísu eru helstu rökin þau að EES-tilskipanirnar séu svo leiðinlegar að ekki sé hægt að ætla neinni þingnefnd eða neinum þingmönnum að sitja og lesa einungis þau skjöl. Það má til sanns vegar færa að EES-tilskipanir — sem eru allt of margar og í allt of mörgum smáatriðum og eru í rauninni svolítið búnar að missa oft og tíðum það upplegg sem lagt var upp með á sínum tíma — eru enginn skemmtilestur, en á móti kemur að það er fleira undir.

Það er líka alveg sérmál að við þurfum að skipuleggja okkur betur þannig að við skoðum þessi mál, tilskipunarmálin, á réttum tíma, þ.e. þegar menn eru að fara að undirbúa þau. Þetta er eitthvað sem kom fram í skýrslu Björns Bjarnasonar fyrir tíu árum. Við höfum ekki enn náð að framkvæma hana. Þetta er nokkuð sem ég tók upp við kollega minn frá Noregi í gær. Við sammæltumst um að reyna að skipuleggja okkur betur saman, þ.e. Ísland og Noregur. Þeir eru auðvitað með miklu meira umfang hvað þetta varðar, ekki bara hjá ríkisstjórn og ráðuneytum, heldur líka í norska Stórþinginu. Norska Stórþingið hefur haft meiri tæki til að fylgja þessum málum eftir og fá að vita hvað er á leiðinni. Það eru oft tækifæri til þess og sannarlega tækifæri til að koma sjónarmiðum þá áleiðis.

Ég ætla ekki að fara í gegnum mistökin sem hafa verið gerð. Ýmis mistök eru og hafa verið gerð sem ég veit að við hefðum getað komið í veg fyrir þegar kemur að þessum tilskipunum. Það er óskynsamlegt að nýta ekki þá kosti sem EES-samningurinn er með þegar kemur að þeim málum.

Ég sé fyrir mér að þetta mál sé af þeirri stærðargráðu að við ættum að hafa sér fastanefnd sem mundi þá líka fjalla um samninga sem þessa. Ég veit ekki hvort þessir samningar verða á lífi. Ég held ekki. Ég held að ef einhverjir samningar komi fram verði þeir með einhverjum öðrum formerkjum. En auðvitað veit ég það ekki frekar en aðrir hér inni. Tíminn á eftir að leiða það í ljós. En það væri held ég ekki skynsamlegt að við værum alltaf að búa til nýja og nýja þingnefnd eftir því sem viðkomandi samningar hverjir sem þeir væru kæmu upp.

Ég vildi bara minnast á þetta en fagna því hins vegar að menn ræði þessi mál. Mér hefur fundist sú umræða sem verið hefur vera góð. En ég held að við gerum þetta best með því að hafa tvær nefndir, utanríkismálanefnd og EES/ EFTA-nefnd um fríverslunarmál. Þá held ég að við næðum þeim markmiðum sem koma fram í þessari þingsályktunartillögu.