146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka ágæta umræðu um þetta mál og þakka sérstaklega hæstv. ráðherra fyrir að sitja hér í þessari umræðu. Það er kominn sá dagur að ég hrósa hæstv. utanríkisráðherra oft á dag, sem er sögulegt. Að mörgu leyti kem ég fyrst og fremst upp til að segja að ég er sammála hæstv. ráðherra og hef áður talað fyrir því í þessum stól að ég hefði viljað sjá verkefnum utanríkismálanefndar skipt upp með þeim hætti sem hann nefndi hér, þ.e. ég hefði viljað sjá sérnefnd fjalla um EES/EFTA-málin og fríverslunarsamninga á borð við þessa og síðan utanríkismálanefnd hinum megin, þá gæti hún einmitt veitt meiri athygli þeim geópólitísku málum sem við er að eiga, flóttamannamálum og tekið þróunarsamvinnuna fastari tökum. Ég tel að það væri skilvirkari og betri leið, en hingað til hefur ekki verið hljómgrunnur fyrir því. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir. Ef þessi tillaga mætti verða til þess að fyrirkomulagi yrði breytt hér á þinginu þá væri það ágætisniðurstaða fyrir mína parta.

Ég legg þessa tillögu fram og við í þingflokki Vinstri grænna fyrst og fremst til að vekja athygli á því að oft erum við, eins og kom fram í máli hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, að fást við orðinn hlut í rauninni þegar alþjóðasamningar koma til þingsins. Við eigum auðvitað að breyta því þannig að allir fái tækifæri til þess að setja sig inn í slík mál eins og við höfum fengið að gera á vettvangi EES/EFTA-nefndarinnar og þó að við hæstv. ráðherra nálgumst málin út frá ólíkum pólitískum skoðunum þá hefur umfjöllunin verið góð og dýpkað umræðuna fyrir okkur sem þar erum. Við höfum reynt að miðla því áfram hingað inn. Mér finnst mikilvægt að allir þingflokkar eigi kost á þessu þannig að ég vonast til að tillaga hæstv. ráðherra sem hann leggur hér til í lokin verði líka rædd í meðförum nefndarinnar um þessa tillögu þannig að hægt verði að ræða málin líka út frá því sjónarmiði. Það væri eins og ég segi ekki slæm niðurstaða ef það yrði niðurstaðan.

En að öðru leyti þakka ég fyrir ágæta umræðu um mikilvæg og stórpólitísk mál.