146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:04]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. flutningsmanni fyrir yfirferð hans og fyrir frumvarpið. Mér líst ljómandi vel á það sem í því er og er sammála því sem það tekur á. Ég reyni að lifa eftir þeirri einföldu reglu að maður eigi að segja satt. Ég er sérstaklega ánægður með að hér skuli vera komið fram frumvarp sem fjallar einmitt um það.

Ég er líka sérstaklega ánægður með að hv. þingmaður lýsti sig tilbúinn til áframhaldandi samtals um það. Það er akkúrat það sem mig langar að taka þátt í hér. Ég hef rætt þetta lítillega við aðra hv. flutningsmenn þessa frumvarps, en ég velti fyrir mér, því að lagasetning þarf að vera skýr og engin vafaatriði þar, að í 2. gr. er talað um það ef upplýsingum er leynt í máli sem Alþingi hefur til meðferðar sem hefur verulega þýðingu fyrir mat þingsins á því. Síðan segir hér í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir broti á þessum hluta ákvæðisins að upplýsingarnar sem leynt var hafi skipt máli við meðferð máls á Alþingi. Sýna þarf því fram á að afstaða þingmanna hefði orðið önnur ef upplýsingar hefðu legið fyrir þegar ákvörðun var tekin.“

Ég staldraði aðeins við það þegar ég var að lesa yfir frumvarpið og greinargerðina. Hvernig sýnum við fram á að afstaða þingmanna hefði orðið önnur ef upplýsingarnar hefðu legið fyrir? Hvernig sýnum við fram á að upplýsingarnar sem leynt var hafi skipt máli við meðferð máls á Alþingi? Það má vel vera að það sé úthugsað og að til séu leiðir sem væri þá gaman að heyra af. En ég velti fyrir mér hvort það þurfi kannski að vera skýrara og skerpt á því hvernig það er gert.