146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Takk fyrir það. Mig grunaði að þetta yrði svarið. Ég vildi fá það samt inn í umræðuna því að mér fannst þetta skipta dálitlu máli þar. Í sjálfu sér ætla ég ekki að koma með margar beinar spurningar núna. Mér líst vel á málið og legg til að við ræðum það og vinnum í því eins og þarf. Ég ætla að lýsa yfir sérstakri ánægju minni með það sem farið er yfir í greinargerðinni, þær skýrslur vinnuhópa og rannsóknarnefnda sem Alþingi hefur skipað á undanförnum árum. Við höfum aðeins rætt það hér á undanförnum dögum í tengslum við ýmis mál.

Ég hef velt því fyrir mér í umræðum undanfarið hvort það væri nú ekki bara gustukaverk að biðja um skýrslu um samantekt þeirra umbótatillagna sem Alþingi hefur sjálft samþykkt, oft og tíðum með öllum greiddum atkvæðum 63 þingmanna, og sjá hvað af þeim hafi svo orðið að veruleika, hvað af þeim ákvörðunum sem til að mynda núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur tekið eru í andstöðu við þær samþykktir og jafnvel ríkisstjórnir þar á undan. Ég velti því upp í andsvari mínu af því að ef við mörg hér inni höfum lesið allar þessar skýrslur og úrbótatillögur yfir höfuð þá höfum við gleymt þeim. Ég fagna því sérstaklega að hér sé vísað í þær. Það er mjög gott að þeim fjórum meginbreytingum sé haldið til haga sem tilteknar eru í greinargerðinni við frumvarpið.

Aftur fagna ég því að frumvarpið sé komið fram og hlakka til til frekari umræðna um það.