146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður var á þingi eftir hrunið þegar mikið af þessari umræðu átti sér stað. Ég vitna til þess að fram kom skýrsla vinnuhóps um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, margt kom fram í niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis, ályktunum og tillögum þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og svo í skýrslu Bryndísar Hlöðversdóttur um yfirferð á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Þetta er svona það stóra sem þingmaðurinn tók þátt í sjálf hérna á þinginu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig var stemningin í þessu öllu saman um þá sér í lagi upplýsinga- og sannleiksskylduna? Hvernig var stemningin þegar menn fóru að tala um að þetta væri nauðsynlegt? Hvernig þróaðist þetta í störfum þingsins í áttina að því að menn komust að þeirri sameiginlegu niðurstöðu: jú, heyrðu, við þurfum kannski að fara að gera þetta? Það væri gaman að heyra söguna.