146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt sem ég held að við getum gert. Þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra, síðar forsætisráðherra, hafi neitað að koma fyrir efnahags- og viðskiptanefnd til að ræða málið og þrátt fyrir að menn hafi beitt reglum þingskapa — fjórðungur nefndar getur kallað eftir slíkum fundi með ráðherra — þá held ég, ég á eftir að skoða það betur, að hann verði samt sem áður að mæta eða í það minnsta verður formaðurinn að halda fundinn. Í 2. mgr. 15. gr. laga um þingsköp, sem eru leikreglur þingsins, segir, með leyfi forseta:

„Formanni nefndar er skylt að boða til fundar ef ósk berst um það frá a.m.k. fjórðungi nefndarmanna og taka á dagskrá þau mál sem tilgreind eru. Sama gildir um ósk frá þeim nefndarmanni sem falið hefur verið að vinna að athugun máls …“

Fjórðungur nefndarmanna, þrír þingmenn. Þá gæti hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, eða hv. Framsóknarþingmaður Lilja Dögg Alfreðsdóttir, stutt það. Það þarf þá einn í viðbót því að Píratar eru með tvo þingmenn í þessari nefnd, mig og hv. Birgittu Jónsdóttur. Þá getum við kallað eftir fundi, sem þýðir að við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd getum kallað eftir fundi ef við viljum ræða þetta atriði og boðað ráðherra sem málið varðar, í þessu tilfelli forsætisráðherra, fyrir nefndina til að ræða hvort það sé svona sem menn vilja hafa þetta í ríkisstjórninni, að neita að mæta á fundi nefndarinnar þegar Alþingi og nefndir þingsins beita eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Eftir að hafa boðað til fundar um þetta málefni getur fjórðungur nefndarmanna samkvæmt sömu grein óskað eftir því að ráðherra komi til fundar nefndarinnar og skal fundurinn haldinn svo fljótt sem því verður við komið eftir að óskin berst. Fundurinn verður haldinn. (Forseti hringir.) Það verður að halda fundinn. Og þá spyr maður hvort Bjarni Benediktsson, hæstv. forsætisráðherra, ætli að skrópa. Við getum að minnsta kosti gert það.