146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:49]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Svo er önnur grein. Það er 19. gr. Þar er sagt, með leyfi forseta:

„Fari að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna fram á slíkan fund skal formaður nefndarinnar leita eftir því með hæfilegum fyrirvara við þann sem beðinn er að koma á opinn fund að hann verði við því og gera honum grein fyrir tilefni fundarins.“

Þá væri líka hægt að hafa fundinn opinn, sem þýðir að það þarf í það minnsta að útvarpa honum en í öllu falli væri honum yfirleitt sjónvarpað, eins og opnum nefndarfundum, eins og við höfum séð.

Mér finnst svolítið mikilvægt að ef ráðherra ætlar að vanvirða eftirlitshlutverk þingsins að hann geri það þá fyrir opnum tjöldum. Þá sér alþjóð að ráðherrann neitar að mæta á nefndafundi Alþingis en fundirnir eru samt haldnir. Hæstv. forsætisráðherra þarf þá að verja það að hann mætir ekki til sannanlega boðaðra funda af málefnalegum ástæðum til að ræða málefni sem varða valdsvið hans, vald sem hann fer með fyrir hönd þjóðarinnar og að Alþingi megi þá búast við því að það sé reglan að hann ákveði hvort það sé við hæfi að þingið hafi eftirlit með honum í það og það skiptið. Ráðherra meti það sjálfur og segi: Nei, það er mitt að meta hvort eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu, með mér sem ráðherra, á við hverju sinni.

Þá sjáum við það, þá er það bara grímulaust. Ég held að það sé alltaf gott þegar maður vill reyna að ná fram breytingum að gefa fólki tækifæri á að breyta rétt. En á sama tíma sýnir það að þegar fólk nýtir ekki það tækifæri til að breyta rétt sjá það allir og þá er það alveg skýrt. Þá erum við komin á annan stað og þurfum að fara að beita öðrum ráðum.