146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Í sjálfu sér, í praxís, er það þannig að ef ráðherra vill ekki mæta á fund er fundurinn ekki haldinn með þeim formerkjum að ráðherra mæti á fundinn heldur er einhver önnur dagskrá eða þá að viðkomandi fundur er ekki haldinn. Ég held ekki að fundur yrði haldinn eða að fundurinn yrði opinn ef ljóst væri að ráðherra myndi ekki mæta. Viðbrögð okkar þingmanna yrðu þá helst þau að láta bóka óánægju og viðbrögð við því ef ráðherrar gefa ekki færi á sér að mæta á fundi. Ég held að það verði að fara þá leið.

En ég tek undir það með hv. þingmanni, auðvitað eigum við að gefa fólki tækifæri til að koma og gera grein fyrir því sem um er að ræða. Í því tilfelli sem ég hef verið að fjalla um er ráðherra búinn að fá tækifæri sem hann kaus svo að nýta sér ekki. Hann var boðaður á fund en kaus að mæta ekki. Það virðist loða svolítið við nýja ríkisstjórn, og ég vona að það séu byrjendamistök hennar, að átta ekki sig á því að samskiptin eiga fyrst að vera við þingið og síðan við fjölmiðla. Það á að vera þannig. Við þingmenn getum illa sætt okkur við að sérstaklega framkvæmdarvaldið kjósi að velja alltaf fjölmiðlana á undan okkur þingmönnunum. Það er ekki ásættanlegt. Og ekki heldur formenn nefnda eða aðrir sem eru í slíkum ábyrgðarstöðum. Þeim ber skylda til að upplýsa þingið áður en þeir upplýsa fjölmiðla, nema lífið liggi við.