146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[18:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þessa spurningu. Ég ætla að leyfa mér að svara henni smávegis. Eftirlit með þessu og hvernig því er framfylgt í núverandi lagaumhverfi er mjög erfitt. Það væri í raun og veru bara að þingið, eða mögulega einhverjar nefndir, gæti tekið það upp hjá sér og rætt um það. En við sem þingheimur höfum engin önnur tæki til að fylgja þessu eftir en að leggja fram þingsályktunartillögu um að Landsdómur skuli kallaður saman, sem er að sjálfsögðu mjög gallað kerfi. Það er gallað að svo mörgu leyti. Ég hef kynnt mér svolítið náið lög sem gilda um Landsdóm og hvernig að honum er staðið. Fyrirkomulagið felur í sér að Alþingi taki í raun að sér hlutverk saksóknara þangað til að hægt er að skipa hann, þ.e. að Alþingi fari með rannsóknarhlutverk um embættisafglöp ráðherra. Þessu verður eiginlega ekki breytt nema að við breytum stjórnarskránni eins og við höfum svo mörg verið að berjast fyrir. Landsdómsfyrirkomulagið eins og það er nú felur í sér að Alþingi hefur takmörkuð verkfæri til að rannsaka svona mál og komast að hinu sanna og það að Alþingi þurfi að rannsaka mál og leggja fram þingsályktunartillögu sem afmarkar það sem ráðherrann er ásakaður um með skýrum hætti og svo verði skipaður saksóknari sem sér um að rannsaka málið frekar fyrir Landsdómi er mjög gallað fyrirkomulag að mínu mati og þyrfti að breyta. En það væri efni í töluvert stærri og viðameiri lagabreytingar en við leggjum til hér.

Það sem við erum að leggja til er að það verði alla vega gert að lagalegri skyldu ráðherra að segja okkur satt, sem mér finnst bara lágmark.