146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[18:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir að þessi mikilvæga tillaga fær umræðu í þinginu svo fljótt eins og við sjáum í dag. Hér er einfaldlega verið að leggja til, eins og kom svo vel fram í máli frummælanda, að farið verði í að vinna heilbrigðisáætlun fyrir Ísland, fyrir landið allt.

Ef ég tala aðeins út frá eigin brjósti hefur mér fundist vera svolítil lenska undanfarin ár að horfa ekki nógu mikið á þá þjónustu sem þarf að veita landsbyggðinni og möguleiki er að veita á landsbyggðinni. Við höfum séð að það er aukinn þrýstingur og pressa og álag á Landspítalanum, okkar meginsjúkrahúsi, jafnvel pressa sem hægt væri að létta af því ágæta sjúkrahúsi með því að nýta stofnanir í kringum höfuðborgarsvæðið eða jafnvel að nýta betur það húsnæði, tæki og tól, sem eru annars staðar á landinu.

Upplifun mín af þessu undanfarið er sú að Landspítalinn hefur verið nánast einn í umræðunni um heilbrigðiskerfið. Það hefur svolítið gleymst að út um allt land eru heilbrigðisstofnanir og þar er að sjálfsögðu fólk sem ætlast til að fá góða þjónustu. Það þarf í dag að keyra um langan veg og fara langar leiðir til þess að sækja þessa þjónustu og á jafnvel í erfiðleikum með að sinna sínum daglegu þörfum þegar kemur að þessu.

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu er vitnað í McKinsey-skýrsluna þar sem bent er á að það er kannski ekki akkúrat fjármagnið sem vanti inn í íslenska heilbrigðiskerfið heldur kannski hvernig það er nýtt, það þarf að dreifa því með betri hætti en gert hefur verið. Það er talað um óskilvirkni í þessari skýrslu.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að förum við í þessa vegferð, förum að vinna þessa áætlun sem ég vonast að sjálfsögðu til að þingið samþykki, þá munum við sjá kannski aðra mynd en við höfum séð af kerfinu hingað til, að það sé hægt að gera meira nær fólkinu úti á landi, það þurfi ekki endilega að senda allt og alla til Reykjavíkur eða á stærri staði til þess að fá þjónustu.

Ég held líka að það sé mikilvægt að hlusta. Það er eitt af því sem kemur fram í þessari tillögu, að hlusta á íbúana, hlusta á fólkið sem býr úti á landi. Við getum nefnt nokkur samfélög, við getum horft á Vestfirðina, Austfirðina og Suðausturlandið þar sem er lengra að fara en það er kannski hægt að veita þjónustu þar með litlum tilkostnaði.

Það þarf líka að horfa til fjarlægðar. Það er ekki þannig að það sé hægt að segja einfaldlega við fólk: Þú getur bara sótt þína læknisþjónustu á þennan stað, en það er kannski einn eða tveir fjallvegir á milli sem eru opnir endrum og eins, ef má orða það þannig. Það eru þessir hlutir sem þarf að taka með í reikninginn. Það er það sem við leggjum til í þessari tillögu.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu miklu lengri. Ég vona að sjálfsögðu til þess að þetta mál fái framgöngu og það verði afgreitt eins fljótt og hægt er í gegnum þingið. Að sjálfsögðu þarf að fara vel yfir það. Það þarf að ræða það vandlega. Mögulega þarf að bæta einhverju inn í þetta o.s.frv. En það er engin ástæða fyrir okkur að tefja málið. Þetta er gott mál. Ef ég man rétt þá er ekki í gildi nein heilbrigðisáætlun fyrir Ísland í dag og því er nauðsynlegt að einhenda sér í þetta verkefni.