146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[18:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu góður hugur á bak við þessa tillögu. Ég tek henni sömuleiðis vel. Mér finnst það sjálfsagt mál að fara yfir það hvort nauðsynlegt sé að reyna að smíða betri og heildstæðari áætlun eða stefnu, eða hvað við kjósum nú að kalla það, í heilbrigðismálunum. Það mun rétt vera, við höfum ekki haft eiginlega heilbrigðisáætlun eða framkvæmdaáætlun beinlínis á því sviði, en við skulum heldur ekki tala eins og við séum að leggja af stað til þess að hugsa um skipulag og stefnu í heilbrigðismálum, það er nú ýmislegt til. Sumpart er það bundið í lögum um heilbrigðisþjónustu. Markmið þar og víðar í löggjöf er auðvitað leiðsögnin sem er til staðar að nokkru leyti um það hvernig við ætlum að hugsa uppbyggingu heilbrigðismála okkar. Það rekur sig áratugi aftur í tímann að hluta. Á 7. og 8. áratugnum urðu t.d. merk tímamót í löggjöf í heilbrigðismálum þar sem uppbygging heilsugæslunnar var í raun lögð til grundvallar og heilsugæslan sem fyrsta viðkomustöð var skilgreind. Þá hófst heilmikil uppbygging heilsugæslustöðva um allt land, sérstaklega á landsbyggðinni, og var kannski meginbrotalömin í því að því verki var aldrei lokið hér á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir vikið var aðgangur manna að heilbrigðiskerfinu með öðrum hætti hér og dreifðari. Við erum með embætti landlæknis og hans skýra lögbundna og ráðgefandi hlutverk í þágu stjórnvalda o.s.frv. Ég er að sjálfsögðu velviljaður því að þetta verði skoðað og vill svo til að ég er í hv. velferðarnefnd sem fær tillöguna til skoðunar.

Ég skynja andann í tillögunni dálítið þannig að hún snúi ekki síst að því að skilgreina þjónustuna á landsbyggðinni. Því er ég alveg sammála. Það má gera betur í þeim efnum. Það er mikið spurt eftir því. Sérstaklega fær maður spurninguna: Er hægt að skilgreina betur þá grunnþjónustu sem við getum treyst á að sé til staðar í byggðum landsins? Það held ég að þurfi að gera. Nú hafa orðið verulegar skipulagsbreytingar á þessu sviði bara á síðustu misserum þar sem stórar heilbrigðisstofnanir sem dekka landshluta og heil svæði hafa orðið til úr nokkrum smærri einingum eða stofnunum. Þá væri mjög nærtækt að halda því verki áfram með því að skilgreina betur grunnþjónustuna, nærþjónustuna, sem þessar stóru svæðisbundnu heilbrigðisstofnanir eigi að tryggja í byggðarlögunum sem þær taka til, sumar taka nánast yfir heila landsfjórðunga, eins og Heilbrigðisstofnun Norðurlands, mjög stórt svæði. Þar er samsetningin allt frá fjórða stærsta sveitarfélagi landsins, Akureyri, og út í mjög smáar byggðir sem búa við miklar vegalengdir, eins og úti á norðausturhorninu o.s.frv.

Það mætti kannski hugsa sér að taka að einhverju leyti mið af því sem menn lögðu til grundvallar á sínum tíma þegar verið var að reyna að koma saman fyrstu heildstæðu samgönguáætlunum að skilgreina tiltekin markmið um ferðatíma og annað því um líkt og leggja stjórnvöldum skyldur á herðar til þess að sjá t.d. um að allir ættu kost á því að komast að heiman og sækja sérhæfðari þjónustu með innan við þriggja klukkustunda ferðalagi eða svo.

Tökum aftur heilsugæsluna og hjúkrunarþjónustuna. Er ekki hægt að hugsa sér að það séu bara sett ákveðin fjarlægðarmörk á það hversu langt er boðlegt að menn þurfi að sækja slíka þjónustu? Menn gleyma stundum hjúkrunarþættinum í þessu og þeim mannréttindum sem það eru að eiga kost á slíkri þjónustu í sinni heimabyggð. Staðan er því miður enn sú að í einstökum byggðarlögum landsins er ekki í boði nein hjúkrunarþjónusta. Þeir sem þurfa á henni að halda verða því að sæta búferlaflutningum oft um langan veg, jafnvel hundruð kílómetra. Það þýðir að menn eru komnir langt í burtu frá heimili sínu og sínu fólki og þurfa aðstandendur að fara í nokkurra klukkustunda ferðalag ef þeir ætla að heimsækja fjölskyldumeðlim. Þetta er ekki boðlegt. Þarna eiga að koma til viðmiðanir sem segja: Nei, stjórnvöld verða að gera það sem þarf til að tryggja að tiltekin grunnþjónusta, nærþjónusta af þessu tagi sé í boði innan hóflegra fjarlægðarmarka. Það er alveg hægt. Það kostar einhverja peninga.

Auðvitað þurfum við að líta yfir heilbrigðiskerfið í heild sinni. Hér hefur verið tæpt á ýmsu en tíminn leyfir ekki að fara í botn í þá umræðu. En við erum með heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað. Í orði kveðnu eru allir sammála því að minnsta kosti, það má efast um að það hafi verið að fullu leyti svo í verki þegar komið hefur verið að því að tryggja uppbyggingu heilsugæslunnar og nægjanlegt fjármagn til hennar. En vonandi er nú ekki pólitískur ágreiningur um að það sé besta fyrirkomulagið að hafa opinbera heilsugæslu þar sem samþætt er að menn eigi kost á að leita til læknis, fá aðgang að hjúkrunarfræðingi, fá aðgang að ljósmóður, þar sem er mæðraeftirlit og ungbarnaeftirlit, fræðsla og forvarnastarf o.s.frv., og að sálfræðiþjónusta eigi að vera á fyrsta viðkomustað, gjarnan samþætt við félagsþjónustu og hjúkrunarþjónustu í viðkomandi byggðarlagi.

Ég held að besta módelið sem komst á þegar það var allt með sem bestum blóma og eiginlega best skipulagða heilbrigðisþjónusta á Íslandi enn sem komið er, hafi verið á Eyjafjarðarsvæðinu þegar heilsugæslan þar var rekin með mestum myndarbrag, fullmönnuð og veitti mjög öfluga þjónustu og var síðan samþætt við félagsþjónustu sveitarfélagsins. Þá held ég virkilega að þetta módel hafi virkað eins og það átti að gera og getur best gert. Síðan var sérgreinasjúkrahús á sama stað. Það þurfti ekkert meira, það þurfti engin endalaus millilög þar á milli. Það var hagkvæmt, vel skipulagt og veitti góða þjónustu.

Síðan er það þannig, góðir hv. þingmenn, að ef við ætlum að skrifa þessa heilbrigðisáætlun eða heilbrigðisstefnu af einurð verðum við að takast á við heitu kartöflurnar í dæminu. Hversu lengi ætla menn að horfa upp á þá þróun að hin opinbera heilbrigðisþjónusta, hvort heldur sem það eru sérgreinasjúkrahúsin eða jafnvel heilsugæslan, sé veikt og fjármunirnir látnir streyma nánast um stjórnlausar pípur út í einkarekstur? Er þá ekki nærtækt að byrja á því að velta fyrir sér spurningunni: Á að fara að leyfa og veita starfsleyfi einkareknu sjúkrahúsi með legudeild sem vill gera bæklunaraðgerðir? Á að nota skattfé í það? Eiga Sjúkratryggingar að fara að gera við þá samning? Og á ráðuneytið að veita leyfi til þess? Hvað þýðir það? Það þýðir auðvitað að fjármunirnir sem eru til aðgerða þynnast. Það þýðir að þá dregur úr nýtingunni á opinberu skurðstofunum sem eru til staðar og í staðinn fyrir að vinna niður biðlistana þar minnkar nýtingin þar og einföldu aðgerðirnar flæða út í einkareksturinn, en eftir situr hið opinbera áfram með allar „komplikasjónirnar“, alla erfiðu hlutina. Það er bara svona og algerlega fráleitt að mínu mati.

Ég er mjög spenntur fyrir því að fara í þetta verk og er tilbúinn að vera með í því. En ég vona þá að menn ætli sér í þetta af alvöru og víki ekki af leið þegar þeir koma að heitu kartöflunum. Við þurfum að takast á við þær og móta skýra stefnu í þeim efnum.

Svo vil ég aðeins koma að þessu með Landspítalann og orðum sem hér féllu um að hann hefði jafnvel fengið of mikla athygli og hefði verið of mikið í umræðunni undanfarin ár. Því er ég algerlega ósammála. Ég held að Landspítalinn sjálfur hafi ekkert verið að reyna að troða sér á framfæri. Ástandið þar hefur einfaldlega kallað á það að hann hefur verið mikið til umræðu. Yfirfullur spítalinn í heilsuspillandi húsnæði og í miklum rekstrarerfiðleikum undanfarin ár hefur verið stanslaust til umfjöllunar, eðlilega. Og stjórnendur Landspítalans hafa að sjálfsögðu komið á framfæri upplýsingum um stöðu mála, eðlilega. Landspítalinn er auðvitað móðurstöðin, endastöðin í heilbrigðisþjónustu landsmanna. Við ætlumst til þess í raun og veru að hann standi undir öllum kröfum sem gerðar eru til sjúkrahúsa í nágrannalöndunum sem eru gjarnan með upptökusvæði upp á 0,5–1 milljón íbúa. Við erum að vísu orðin 338 þúsund og eitthvað núna, en eftir sem áður erum við fámenn þjóð að reyna að reka eitt sérhæft sérgreinasjúkrahús. Það er meira en að segja það. Þess vegna eigum við auðvitað ekki að veikja tilverugrundvöll þess með því að fara að fleyta þaðan starfsemi út í einkarekstur. Það er það sem Danirnir mundu segja, herra forseti, ég vona að mér fyrirgefist að sletta dönsku, „den rene, galne vanvid“. Það er bara þannig. Það er svo fáránlega vitlaust að það hálfa væri nóg.

Landspítalinn er okkur gríðarlega mikilvægur en það gildir að sjálfsögðu sama um aðrar (Forseti hringir.) heilbrigðisstofnanir sem hér hafa verið nefndar, bæði svæðisbundin sjúkrahús, hvort sem þau eru á Suðurnesjum eða í Neskaupstað, og heilsugæsluna og allt þar á milli. Þó að við sinnum málefnum Landspítalans þýðir það ekki að við séum áhugalaus um hitt.