146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

sjúkratryggingar.

4. mál
[19:26]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka flutningsmanni, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir að flytja þessa þingsályktunartillögu, sem er flutt öðru sinni, um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Sömuleiðis vil ég nota tækifærið og þakka fyrir umræðuna alla um heilbrigðisþjónustu og þingsályktunartillögu hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur um heilbrigðisáætlun.

Heilbrigðisþjónusta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur fyrir alla landsmenn, en jafnframt afar viðkvæmur. Við sem höfum starfað í þeim geira þekkjum það giska vel. Landið er allt á iði og búsetuhættir landsmanna eru að breytast. Það er ekki óeðlilegt að við förum að huga að breytingum á því hvernig við viljum veita þessa þjónustu. Þetta er í senn jafnréttismál og byggðamál líka. Í þessu getur falist byggðastefna stjórnvalda. Ekki byggðastefna byggðastefnunnar vegna því að með því að byggja upp heilbrigðisþjónustu um allt land gerum við líka fagfólki kleift að búa vítt og breitt um landið.

Samgöngur hafa breyst og batnað. Taka ber mið af því. Og síðan hefur ekki síst þekking bæði íbúanna og einstaklinganna, landsmanna yfir höfuð, aukist. Við vitum meira um heilbrigðisþjónustu og heilsufar en við vissum fyrir 20 árum. Við erum miklu meðvitaðri um gæði þjónustunnar. Krafan um bestu mögulegu þjónustu verður stöðugt ríkari.

Sömuleiðis eru breytt viðhorf fagfólks sem vinnur við heilbrigðisþjónustu. Það er eitt viðfangsefnið. Nú er það liðin tíð að læknir sé reiðubúinn að setjast einn að í litlum bæ og binda sig á vöktum daginn út og daginn inn mánuðum saman. Þetta er fortíð. Við verðum að miða að því í okkar vinnu að búa fagfólki sem vill vinna í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni ásættanlegt starfsumhverfi. Síðan að taka afstöðu til þessara þátta, sem eru hvar við eigum að veita þjónustu, hvar við eigum að hafa uppi heilbrigðisstofnanir eða heilsugæslustöðvar og hvaða þjónustu, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á. Og hvað tilheyrir grunnþjónustunni. Sumir segja að á hverri og einni einustu heilsugæslustöð eigi að vera t.d. möguleiki á að taka röntgenmyndir. Fagfólk er ekki endilega sammála um þetta atriði svo það sé tekið. Það eru svona málefni sem við þurfum að skapa okkur samkomulag um. Þetta er mjög erfitt að gera innan hverrar og einnar heilbrigðisstofnunar því að málið er svo viðkvæmt heima fyrir.

Síðan eru það þau atriði sem lúta að heilbrigðisumdæmunum, sem eru átta í landinu. Hvaða vald og verkefni eigum við að veita og fela þeim, og hvaða sjálfstæði, faglegt og fjárhagslegt? Þarna eru sóknarfæri fyrir landshluta, getum við sagt.

Við vitum að heilbrigðisþjónustan á Íslandi hefur gengið í gegnum miklar þrengingar á undanförnum árum. Við höfum ekki náð vopnum okkar enn sem komið er. Þetta endurspeglaðist í umræðunni sem var hörð á köflum um málefni Landspítalans, þessarar mikilvægustu heilbrigðisstofnunar á landinu, núna skömmu fyrir jólin í aðdraganda fjárlagagerðar. Mönnum hefur svolítið orðið tíðrætt um að Landspítalinn fái mikla athygli, en hann er auðvitað mikilvægasta heilbrigðisstofnun landsmanna, sú heilbrigðisstofnun sem við lítum öll til ef mikið liggur við. Það er bara þannig. Það er ekki óeðlilegt þótt sú stofnun fái mikla athygli og lögð sé áhersla á það, bæði af starfsmönnum og stjórnendum þar, að vel sé búið þar um hnútana. Hins vegar er það nú þannig að Landspítalinn á ekki að gera alla hluti. Hann á ekki að vera upphaf og endir á öllu. Okkar mein eru ekki þess eðlis að þau séu lífshættuleg í öllum tilvikum og það eru ýmisleg meðalstór læknisverk og allumfangsmikla heilbrigðisþjónustu hægt að veita annars staðar en á Landspítala. Komið var inn á það einmitt áðan að slíkt væri hægt að veita t.d. á suðvesturhorninu, á Suðurnesjum væri heilbrigðisstofnun sem væri í túnfæti flugvallarins. Er ekki hægt að hugsa sér að einn af þeim spítölum á suðvesturhorninu legði áherslu á að veita t.d. útlendingum heilbrigðisþjónustu?

Það er náttúrlega alvarlegt þegar stærsta heilbrigðisstofnun okkar á erfitt með að rækja sitt lögbundna hlutverk vegna fjárskorts. Við vitum í hvaða sporum aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu hafa verið. Í þéttbýliskjörnum, á mesta þéttbýlissvæði landsins eru heilbrigðisstofnanir sem eru vel búnar. Þær eru með aðgerðaaðstöðu sem er vannýtt. Ég geri ráð fyrir að nýtingin á aðgerðaaðstöðunni á heilbrigðisstofnunum á Akranesi, Selfossi, í Keflavík, sé svona 50–70%. Þó að þær séu vel nýttar að öðru leyti.

Þær stofnanir gætu verið virkir þátttakendur í ýmsum verkefnum í ríkara mæli, m.a. á aðgerðasviði, ef hugur stjórnvalda stæði til þess. En það stefnir bara í aðra átt. Mikilvægasta atriðið í þessu öllu saman er að þótt aðstaðan á þessum þremur stofnunum sem ég nefndi sé ágæt, það eru t.d. tvær glæsilegar skurðstofur í Keflavík, kemur það að litlu gagni ef við höfum ekki þjálfaðan, góðan mannafla. Það áttum við í Keflavík en eigum kannski ekki lengur nema að mjög litlu leyti vegna þess að þær skurðstofur eru í lítilli notkun. Það er það mikilvægasta, að hafa þjálfaðan mannskap. En það kemur ekki í veg fyrir að nýta megi þær stofnanir miklu betur eins og kom fram í máli þingmanna áðan, starfsfólkið er miklu hreyfanlegra en sjúklingarnir.

Mikill þrýstingur er á að færa aukinn hluta heilbrigðisþjónustunnar til einkaaðila. Einkaaðilar líta auðvitað einfaldlega á þennan geira sem gróðavænleg viðskipti og fara svo sem ekki dult með það. Heilbrigðisþjónusta er hins vegar ekki eins og hver önnur vara. Þetta eru ómæld verðmæti. Einkarekin þjónusta sem starfrækt er á viðskiptalegum grunni á að skila hagnaði, enda liggja milljarðar undir í fjárfestingu. Reynsla annarra þjóða af starfsemi af þessu tagi er almennt á eina lund; rjóminn er fleyttur ofan af og sérhæfing í tiltölulega einföldum valaðgerðum og gróðavænlegum verkefnum á sér stað. Það er engin heildaryfirsýn og ábyrgð. Þar er almennt ekki um bráðaþjónustu að ræða. Viðbúnaður til að takast á við hliðarverkefni eða „komplikasjónir“ eða ef eitthvað fer úrskeiðis, er gjarnan látinn lönd og leið og í hendur opinberra sjúkrastofnana sem þurfa að glíma við „akút“ tilfellin sem oft eru tímafrek, samsett og flókin. Menntunarþátturinn er skilinn eftir, rannsóknir og þjálfun starfsmanna. Þetta eru veigamikil atriði og fyrst og fremst samfélagsverkefni sem opinberar heilbrigðisstofnanir, í okkar tilfelli Landspítali, annast fyrst og fremst.

Síðast en ekki síst er það mikill misskilningur að með þessu náum við markmiðum um að lækka kostnað í heilbrigðisþjónustu. Reynslan víðast hvar er sú að hið öndverða gerist. Þjónustan verður auk þess ósamstæðari og lakari þegar á heildina er litið.

Það er skaðlegt að leggja á þessar brautir nú þegar almenna heilbrigðiskerfið er í grunninn vanfjármagnað og við bíðum enn eftir raunverulegri stefnu í málaflokknum.

Að lokum vil ég segja þetta, virðulegi forseti: Það er algerlega ótækt að ráðherra einn og án aðkomu þingsins skuli geta tekið svo afdrifaríkar og stefnumarkandi ákvarðanir, að færa viðkvæma þjónustu, eins og gegnir um heilbrigðisþjónustu í þágu almennings, í hendur einkaaðila. Það er dirfska, svo ekki sé meira sagt. Ekki síst þar sem það er þvert á yfirlýstan og staðfestan vilja þorra þjóðarinnar þegar spurt er.