146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

sjúkratryggingar.

4. mál
[19:38]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langaði að koma upp í stutta ræðu og fagna því máli sem hér um ræðir og þakka hv. þingmönnum Samfylkingarinnar fyrir að leggja þetta góða mál fram og þá sérstaklega hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur.

Ég er með nokkra punkta á nokkrum blöðum sem vöknuðu við framsögurnar sem fram hafa farið. En í fyrsta lagi langar mig að ræða það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að tilgangur þessara breytinga er að ráðherra hafi skýrt umboð lýðræðislegra kjörinna fulltrúa þjóðarinnar hverju sinni til að ganga til samninga við einkaaðila og að hann þurfi að hafa slíkt umboð. Það er mjög mikilvægt að ráðherra hafi skýrt umboð. Ég tek undir þetta, að hann hafi skýrt umboð frá Alþingi til að ganga til samninga. Hann geti ekki bara ákveðið einn og sér hvernig og hvaða stefna sé tekin í heilbrigðismálum. Ég tel að þetta sé náskylt því máli sem við ræddum hér á undan þessu um mikilvægi stefnumótunar. Eins og hv. þm. Halldóra Mogensen sagði áðan þá verðum við að vita hvert við ætlum að stefna og hvaða átt við ætlum að fara í.

Ef maður horfir á það frá svolítið sanngjörnu sjónarmiði þá er líka jákvætt að hæstv. ráðherrar hverju sinni þurfi ekki að taka þessa ákvörðun einir, að það sé stefna til langs tíma, stefnumótandi mál til langs tíma, við bakið á þeim, og þeir viti hvaða umboð þeir hafi frá lýðræðislegum fulltrúum, hv. þingmönnum á Alþingi, þingheimi, til þess að taka ákvörðun um í hvaða átt skuli stefna.

Í öðru lagi langaði mig að minnast á atriði sem fram kemur í greinargerð með þessu ágæta frumvarpi, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Tryggja þarf að einkaaðilar fleyti ekki rjómann í samningum við hið opinbera á þann veg að þeir fái greitt án þess að axla sambærilegar skyldur og opinberir aðilar þurfa að gera.“

Þetta er jafnframt mjög mikilvægt. Í síðustu viku komu fréttir um það að landlæknir hefði veitt Klínikinni leyfi til þess að opna legudeild til þess að stytta biðlista eftir ákveðnum skurðaðgerðum. Í framhaldi af því höfum við báðir hv. þingmenn, ég, Elsa Lára Arnardóttir, og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, óskað eftir fundum í ákveðnum nefndum vegna málsins. Í fyrramálið fer fram fundur í hv. velferðarnefnd með aðilum vegna þessa máls.

Ég átti ýmis samtöl við fagfólk um helgina, en fagfólk með ákveðnar og mismunandi skoðanir hefur haft samband um helgina eftir fréttatilkynningar um þessa þætti og lýst skoðunum sínum á þessu fyrir mér og þær eru jafn mismunandi og þær eru margar. En það sem fram kom og stóð mjög mikið upp úr í þeirri umræðu eru áhyggjur fagfólks af því að í einkarekna kerfinu geti fyrirtækin ákveðið hvaða aðgerðir verða framkvæmdar. Þau geti valið sér hagkvæmari aðgerðir, sem jafnvel hraustara fólk kannski kemur í, á meðan við erum með ríkisreknu sjúkrahúsin og heilbrigðisstofnanirnar sem eru skyldugar til að taka við öllum aðgerðum, sama hvort þær eru hagkvæmar eða ekki. Ég hafði ekki alveg gert mér grein fyrir því. Við heyrum oft umræðuna um að þetta sé bara fínt, við fáum meira fyrir peninginn með því að fara inn í einkarekna kerfið. En í samtölum mínum við fagfólk stóð jafnframt upp úr að það er ekki hægt að bera saman hagkvæmni hins opinbera og einkarekna vegna hins eðlisólíka sviðs sem er þar á bak við, einkareknu fyrirtækin geta valið aðgerðirnar á meðan hin eru skyldug til að taka allt. Mér finnst þetta því mjög góður texti sem fram kemur í greinargerðinni um þetta.

Jafnframt langar mig aðeins að ræða það sem kemur fram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er einnig lögð til sú breyting á 40. gr. laga um sjúkratryggingar að í samningi um heilbrigðisþjónustu skuli kveðið sérstaklega á um ráðstöfun hagnaðar sem til verði í rekstri þess einkaaðila sem gerður er samningur við. Skal í samningnum m.a. kveðið á um að viðkomandi aðila sé óheimilt að greiða arð til eigenda sinna.“

Þetta tel ég jafnframt mjög mikilvægt því hér er um að ræða heilbrigðisþjónustu. Ríkið veitir einhvern stuðning inn í þennan þátt. Um er að ræða skattfé almennings og það þurfa að vera skyldur og mjög skýrar skorður um það hvað verður um þennan hagnað. Auðvitað viljum við að starfsfólkið hafi góða vinnuaðstöðu, sjúklingarnir góða aðstöðu og tækin séu góð, og það verða að vera mjög skýrar skorður um það að ef hagnaður verði af greininni renni hann til þeirra þátta.

Ég styð þetta mál. Ég hlakka til, þar sem ég sit í hv. velferðarnefnd, að taka það til umræðu og tel það geti haft ákveðin samlegðaráhrif með stefnumótunarákvæðunum varðandi stefnumótun í heilbrigðismálum og verði gott að taka þetta allt samhliða. Ég hlakka til.