146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Halldór Þorgeirsson, framkvæmdastjóri á skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, hvatti til þess í síðustu sunnudagsfréttum hjá RÚV að Íslendingar standi í fremstu röð í andófinu gegn varasömum loftslagsbreytingum, sagði eins og margoft hefur verið endurtekið að það gerist ekki í krafti stærðar þjóðarinnar heldur þekkingar og reynslu af nýtingu t.d. vatnsorku og jarðvarma og vegna endurheimtar landgæða. En erum við í reynd í þeirri stöðu? Að sumu leyti, já, en svarið er ekki endilega þannig ef horft er til næstu ára eða allra þátta málaflokksins. Til dæmis hefur verið brugðist of hægt við Parísarsamkomulaginu, eins og margoft hefur komið fram, betur má ef duga skal ef þetta á virkilega að ná árangri og vonandi stuðlar Alþingi að betri tíð í þeim efnum.

Þá að hinu aðalatriðinu í máli Halldórs Þorgeirssonar og raunar margra annarra, þar á meðal mín. Hann hvatti réttilega til þess að loftslagsmálin væru ekki gerð að flokkspólitísku deilumáli. Á Alþingi eru fáir eða engir — og nú skýli ég mér á bak við stutta setu hér og staðreyndir sem verða æ fleirum augljósar — þingmenn sem afneita hraðri hlýnun jarðar eða stórum þætti manna í henni. Þess vegna eru og verða loftslagsmálin ekki flokkspólitísk sökum mikils ágreinings um stöðu og horfur. Orð hæstv. forsætisráðherra um mikilvægi loftslagsmála og svipuð orð okkar í stjórnarandstöðunni staðfesta það, en loftslagsmálin geta engu að síður orðið flokkspólitísk og þá spyr ég: Af hverju? Af því að við erum afar ósammála um ríkisfjármál og þar með um öflun fjármuna til að stórauka framlög til allra þeirra verkefna sem minnka losun kolefnisgasa og hinna sem binda kolefni. Þess vegna hvet ég til þess við gerð og fjármögnun aðgerðaáætlunar stjórnvalda að þar verði tryggðir miklum mun stærri sjóðir en nýsamþykkt fjárlög gera ráð fyrir. Sömuleiðis að við gerð fjárlaga næsta árs gerist það sama. Þar ber þingið (Forseti hringir.) og ekki síður ríkisstjórnin mikla ábyrgð á að ná sem mestri samstöðu flokka í einu brýnasta úrlausnarefni samtímans.


Efnisorð er vísa í ræðuna