146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Nú stendur hæstv. heilbrigðisráðherra frammi fyrir mjög stórri ákvörðun, þ.e. hvort hann ætli að gefa einkasjúkrahúsi rekstrarleyfi. Ég vil minna hæstv. ráðherra á það að samkvæmt skoðanakönnunum telja 80% þjóðarinnar að rekstur heilbrigðiskerfisins sé best kominn í höndum hins opinbera. Ég vek líka athygli á orðum forstjóra Landspítalans sem segir, með leyfi forseta:

„Það væri því skammsýni að semja um þennan rekstur og óþarfur kostnaðarauki fyrir skattgreiðendur. Landspítali hefur fulla burði til að sinna liðskiptaaðgerðum og hefur metnað til að gera það áfram í góðri samvinnu við sjúkrahúsin á Akureyri og á Akranesi.“

Það á aldrei að vera háð duttlungum einstaka ráðherra að gera svona grundvallarbreytingar sem munu hafa afdrifarík áhrif á samfélagið. Þingið á að taka slíkar stefnumótandi ákvarðanir og við þingmenn Samfylkingarinnar höfum flutt um þetta frumvarp og ég hvet ykkur til að kynna ykkur það. Í öllu falli ætti hæstv. heilbrigðisráðherra að koma hingað og eiga orðastað við þingmenn um einkarekstur eða opinberan rekstur í heilbrigðisþjónustunni.

Þeir spítalar sem við rekum í dag eru hvorki fullnýttir né fullfjármagnaðir og mér finnst að það eigi að vera forgangsverkefni dagsins í dag að styrkja hið opinbera heilbrigðiskerfi.


Efnisorð er vísa í ræðuna